Körfubolti

Knicks goðsögn látin

Anton Ingi Leifson skrifar
Mason í eldlínunni.
Mason í eldlínunni. Vísir/Getty
Anthony Mason, körfuboltagoðsögn, sem hjálpaði New York Knicks að vinna Austurdeildina árið 1994 er látinn, einungis 48 ára að aldri. Talsmaður Knicks staðfesti þetta í samtali við ESPN að Mason hafi dáið í gær.

Mason spilaði í þrettán ár í NBA, en hann greindist með hjartagalla fyrr í þessum mánuði.

„Fyrst af öllu vil ég þakka öllum fyrir kveðjurnar. Fjölskyldu okkar þykir mjög vænt um það,” sagði sonur hans, Anthony Mason JR., í gær.

„Borgin New York hefur misst goðsögn, vin, bróður, en meira en allt föður okkar, Anthony Mason. Ég óska þess að ég væri að skrifa eitthvað annað en þetta, en pabbi - við viljum láta þig vita að við elskum þig og vitum að þú munt alltaf vera með okkur.”

Antoine, annar sonur Mason, sagði í vikunni að Mason eldri væri að verða betri eftir aðgerð sem hann gekkst undir. Áfallið dundi svo yfir í gær, en fjölskylda Mason segir að hann hafi barist eins og stríðsmaður allt til enda.

Mason er þekktastur fyrir leik sinn með New York Knicks, en hann lék einnig með Charlotte Hornets, Miami Heat og Denver Nuggets til að mynda. Hann skoraði 9656 stig í NBA-boltanum, tók 7279 fráköst og gaf 2963 stoðsendingar.

Margir þekktir fyrrum leikmenn og þjálfarar í NBA hafa vottað fjölskyldu og vinum Anthony virðingu sína, en þar á meðal er forseti Knicks, Phil Jackson.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×