Enski boltinn

Klopp: Gagnrýnið mig, ekki leikmennina

Anton Ingi Leifsson skrifar
Klopp eftir leikinn í gær.
Klopp eftir leikinn í gær. vísir/getty
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, segir að hann taki alla ábyrgð á 2-2 jafntefli liðsins gegn Exeter í enska bikarnum í gærkvöldi. Brad Smith bjargaði Liverpool fyrir horn, en liðin mætast á nýjan leik á Anfield.

„Ef þið viljið gagnrýna eitthvað, gagnrýniði mig þá og látiði leikmennina vera. Þessir leikmenn voru duglegir og þeir reyndu og ef þeir gerðu mistök er það á minni ábyrgð,” sagði Klopp í samtali við fjölmiðla í leikslok.

„Ef þeir eru ekki góðir í stöðunni einn á móti einum þá er það á ábyrgð allra þjálfara Liverpool. Ef þeir eru ekki nægilega góðir að skalla, þá er það á ábyrgð allra þjálfara Liverpool og ekki leikmannana.”

Kolo Toure, Mamadou Sakho og Dejan Lovren eru frá vegna meiðsla og það veldur Klopp smá hugarangri, en hann hvíldi þrettán leikmenn í gær sem byrja iðulega leiki Liverpool. Allt byrjunarliðið frá 1-0 sigrinum á Stoke í vikunni spilaði ekki í gær.

„Við spilum fleiri leiki en sum önnur lið því við erum enn í deildarbikarnum og við erum enn í Evrópudeildinni. Aðalvandræðin eru að miðverðir okkar eru meiddir á þessum tímapunkti.”

„Við vorum með fimm miðverði í upphafi tímabils og á þessum tímapunkti erum við með gann. Í næstu viku gæti þetta orðið öðruvísi og við munum sjá hvað við getum gert.”

Völlurinn í gær var ekki mikið til að hrópa húrra fyrir og Klopp segir að það hafi hjálpað Exeter hvernig völlurinn var.

„Þeir spiluðu mjög vel og völlurinn var erfiður fyrir bæði lið. Það hjálpar til ef þú getur spilað þinn fótbolta og það gaf Exeter forskot vegna þess að þeir kunnu betur á völlinn en við. Þeir gerðu vel, það var gott andrúmsloft og góð kynni hjá mér af fyrstu umferð minni í FA-bikarnum,” sagði þessi geðþekki Þjóðverji að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×