Erlent

Klippa rasismann burt úr Línu langsokki

Atli Ísleifsson skrifar
Þættirnir um Sigurlínu Rúllugardínu Nýlendínu Krúsimundu Eiríksdóttur Langsokk, voru fyrst sýndir árið 1969.
Þættirnir um Sigurlínu Rúllugardínu Nýlendínu Krúsimundu Eiríksdóttur Langsokk, voru fyrst sýndir árið 1969.
Sænska ríkissjónvarpið (SVT) hefur ákveðið að klippa burt efni úr þáttunum um Línu langsokk sem þykir kunna að stuða fólk.

Þættirnir, sem voru fyrst sýndir árið 1969, verða aftur teknir til sýninga á barnarás SVT í desember þar sem endurbætur hafa verið gerðar bæði á mynd og hljóði.

Atriði þar sem leikkonan Inger Nilsson í hlutverki Línu, vísar til föður síns sem „negrakóngs“ hefur verið breytt í „kóng“. Þá hefur verið ákveðið að klippa um atriði þar sem Lína leikur Kínverja með því að strekkja á húðinni í kringum augun.

Í frétt SVT segir að það hafi verið ríkissjónvarpið sjálft sem hafi átt frumkvæði að breytingunum þar sem 45 ára gamalt efnið kunni að stuða nútímaáhorfendur.

„Markhópurinn eru börn og við trúum að efnið kunni að virka særandi eða niðrandi fyrir börn sem sjá og heyra það,“ segir Paulette Rosas Hott, sölustjóri hjá SVT.

Saltkråkan AB, rétthafi verka eftir og byggðum á verkum rihöfundarins Astrid Lindgren, hefur samþykkt breytingarnar og segir talsmaður félagsins sannfærður um að Lindgren hefði sjálf samþykkt þær.

Lindgren lést árið 2002, en fyrsta bókin um Línu kom út árið 1945.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×