Lífið

Klippa allan daginn fyrir hjartað

Emil Ólafsson og hársnyrtar Sjoppunnar minna fólk á mikilvægi hjartans í Hjartagarðinum, milli Laugavegs og Hverfisgötu, í dag.
Emil Ólafsson og hársnyrtar Sjoppunnar minna fólk á mikilvægi hjartans í Hjartagarðinum, milli Laugavegs og Hverfisgötu, í dag. Fréttablaðið/Stefán
„Pabbi minn fékk hjartatruflanir fyrir tveimur vikum síðan. Ég ætlaði að halda klippi-maraþonið upp á gamanið en ákvað að snúa þessu yfir í góðgerðarmál," segir Emil Ólafsson, annar eigandi hársnyrtistofunnar Sjoppunnar sem stendur fyrir klippingum gegn frjálsum framlögum og sumargleði í Hjartagarðinum til styrktar Hjartaheill í dag.

Undanfarin tvö ár hafa hársnyrtar stofunnar safnað fyrir Krabbameinsfélagið með svipuðu sniði. „Kristján Aage, sem á stofuna með mér, missti mömmu sína fyrir tveimur árum úr krabbameini," segir hann og bætir við: „Stofan gengur vel og við viljum gefa eitthvað til baka, til þeirra sem hafa fylgt okkur í gegnum lífið."

Sumarhátíðin hefst klukkan tólf á hádegi og stendur fram eftir kvöldi. Tónlistarveitan Gogoyoko leikur lifandi tónlist meðan starfsmenn Stofunnar snyrta hár. Grillaður kjúklingur verður í boði og samkeppnisaðilarnir Hemmi og Valdi, Lebowski og Faktorý sjá gestum fyrir léttum veitingum ásamt Vífilfelli. Allir sem láta peninga af hendi rakna taka þátt í veglegu happdrætti.

Emil hrósar Hjartaheillum, landssamtökum hjartasjúklinga á Íslandi, fyrir gott starf og með hátíðinni vill hann minna fólk á mikilvægi hjartans og óviðeigandi sparnað í heilbrigðiskerfinu. „Ég beið eftir skoðun í þrjú korter á bráðamóttöku með mjög öran hjartslátt og fékk rafvendingu eftir tæpa sex tíma," segir faðir Emils um upplifun sína, en hann er afar þakklátur fyrir góða þjónustu starfsfólks sjúkrahússins. - hþt






Fleiri fréttir

Sjá meira


×