Viðskipti innlent

Kjarasamningarnir stærsta verkefnið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðrún Hafsteinsdóttir var fyrst kjörin í stjórn Samtaka iðnaðarins árið 2011 en var nýlega endurkjörin formaður.
Guðrún Hafsteinsdóttir var fyrst kjörin í stjórn Samtaka iðnaðarins árið 2011 en var nýlega endurkjörin formaður. Fréttablaðið/Ernir
Guðrún Hafsteinsdóttir var kjörin stjórnarmaður í Samtökum iðnaðarins árið 2011. Þremur árum síðar bauð hún sig fram gegn þáverandi formanni, Svönu Helen Björnsdóttur, og hafði betur. Hún var svo endurkjörin formaður í byrjun mars.

Guðrún segir engan taka ákvörðun um formannsframboð hjá Samtökum iðnaðarins án umhugsunar. „Fæstir vakna einn góðan veðurdag og hafa fengið þá flugu í höfuðið að bjóða sig fram til formanns Samtaka iðnaðarins, þetta á sér alltaf einhvern aðdraganda. Það verður að segjast eins og er að það var ákveðin óánægja,“ segir Guðrún. Komið hafi verið að máli við hana í desember 2013 og sú hugmynd viðruð að hún tæki að sér formennsku. „Þá þótti mér það algjörlega óhugsandi, ýtti því frá mér. Síðan þegar leið á, fljótlega eftir áramót 2014, þá jókst þessi þungi,“ segir Guðrún. Hún skynjaði þá að það væri áhugi fyrir því í grasrótinni að hún tæki formennskuna að sér. Þá hafi hún ákveðið að verða valkostur þeirra er óánægðir voru. „Ég átti ekkert von á því að verða kosin formaður en þetta eru frjáls og lýðræðisleg samtök og ég mat stöðuna þannig að það væri þá bara gott að sá sem gegndi þessu embætti hefði skýrt umboð til þess.“

Ráðist í mikla stefnumótun

Guðrún segir það vera fjölbreytt og skemmtilegt starf að vera formaður Samtaka iðnaðarins. „Við fórum í viðamikla stefnumótun á árinu 2014 þar sem dregin voru fram þrjú meginsvið samtakanna sem eru byggingar og mannvirki, framleiðsla og matvæli og hugverk og þjónusta. Með þessari skiptingu hefur okkur tekist að auka skilvirkni og þjónustu gagnvart félagsmönnum. Að undanförnu höfum við lagt megináherslu á menntun, nýsköpun og framleiðni með góðum árangri. En eitt af stærstu verkefnunum voru kjarasamningsviðræður á síðasta ári,“ segir Guðrún. Hún útskýrir að sem formaður Samtaka iðnaðarins eigi hún sæti í stjórn og framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins. Slík stjórnarþátttaka felur í sér aðkomu að gerð kjarasamninga.

„Það að lenda í hringiðju kjarasamningsviðræðna er heilmikil áskorun og þetta leit ekkert vel út á tímabili. Það er gríðarlega mikil ábyrgð að vera allt í einu í þeirri hringiðu að atvinnulífið lamast og þú ert einhvern veginn þátttakandi í þeirri atburðarás.“ Hún segir gríðarlega mikla stífni og átök hafa einkennt kjarasamningsviðræðurnar. Það hafi komið sér á óvart hve háar launakröfurnar voru sem forsvarsmenn launþega komu fram með í byrjun síðasta árs. „Því eftir efnahagshrunið og þá erfiðleika sem bæði heimili og fyrirtæki hafa þurft að fást við þá fannst mér við vera í viðspyrnu. Mér fannst við vera að komast á skrið. Við vorum með verðbólgu í sögulegu lágmarki og það er nú mín skoðun að það sé ekkert eins mikil kjarabót fyrir launamanninn og lág verðbólga. Við þekkjum það öll. Við erum öll með verðtryggð lán.“

Guðrún bendir á að það hafi verið hið opinbera sem lagði línurnar í þessum kjarasamningum og það gangi ekki. „Það er bjargföst skoðun mín að hið opinbera getur ekki leitt launahækkanir í landinu. Það verða útflutnings- og samkeppnisgreinarnar að gera.“

Flókið að mæta hækkununum

Guðrún segir að það verði meiriháttar mál fyrir iðnaðinn að mæta þessum launahækkunum. „Þar get ég nefnt hefðbundinn iðnað eins og matvælaiðnað. Farvegurinn er þá bara einn til að mæta þessu og við þekkjum hann alveg. En þetta er framhlaðinn samningur og ég trúi því að við séum að kaupa okkur framtíð. Við erum í fyrirframgreiðslu inn í stöðugleikann,“ segir Guðrún og bætir því við að hún hafi miklar væntingar um að svokallað SALEK-samkomulag geti stuðlað að auknum stöðugleika. Það sé samkomulag um að skapa nýtt vinnumarkaðsmódel, sem sé gríðarlega mikilvægt.

„Við erum búin að fá einn fremsta vinnumarkaðssérfræðing Noregs til að leiða þá vinnu,“ segir Guðrún. Horft sé til Norðurlandanna í þeirri vinnu.

Að allt öðru, hvernig snertir reglugerðarumhverfið íslenskan iðnað? Hvað hafið þið gert til að hafa áhrif á hvernig það er unnið?

Það er okkur gríðarlega mikið hjartans mál og líka mér persónulega. Því að ef eitthvað er eitur í mínum beinum þá er það miðstýring. Ég hef feiknatrú á fólki og það hvarflar ekkert að mér að fara að vasast í einkalífi fólks. Hvenær þú eigir að borða eða hreyfa þig. Eða hvort þú eigir að ganga eða keyra í vinnuna. Ég treysti þér bara fullkomlega til að taka þær ákvarðanir,“ segir Guðrún. Reglugerðarbáknið og eftirlitsbáknið sé þess eðlis að það lýsi svolitlu vantrausti á fólk og þá verði að veita svolitla viðspyrnu.

Guðrún segir að það verði að sjálfsögðu að bregðast við ef fólki verður á í messunni. En eftirlitskerfin megi aldrei verða íþyngjandi, heldur eigi þau að hjálpa til. Hún segir að bæði reglugerðar- og eftirlitsumhverfið sé íþyngjandi í dag og það sé mjög miður. „Mér þykir mjög miður ef fólk með góðar hugmyndir gefst upp vegna þess að það verður svo mikil þrautaganga að hrinda þeim í framkvæmd. Það að þú þurfir að ganga á milli Pontíusar og Pílatusar til að fá leyfi, hvort sem það eru byggingarleyfi, leyfi til að opna veitingastaði, matvælavinnslu eða hvað annað,“ segir hún.

Guðrún vill að í framtíðinni geti fólk farið á einn stað og afgreitt öll sín leyfismál. „Oft og tíðum er þetta bara aukin skattheimta,“ segir Guðrún og bendir á að sveitarfélög hafi til að mynda tekið upp sérstakt umfjöllunargjald. Sveitarfélögin innheimti þá 15 þúsund krónur fyrir að taka á móti fyrirspurnum. „Ég hef engan skilning á því,“ segir Guðrún en bætir þó við að það þurfi að vera rammi utan um alla starfsemi. Alveg sama hvort það er í bankakerfinu, heilbrigðiskerfinu eða annars staðar. „Hann þarf að vera þannig að allir skilji. Þannig að það sé gott að vinna í honum og hann á ekki að vera íþyngjandi. Svo á hann að vera þannig að við förum eftir honum. Mér finnst við Íslendingar alltaf vera að vinna þannig að það eru sett lög og reglur sem við vinnum síðan ekkert eftir. Ekki löggjafinn heldur. Við eigum að hætta því. Það á aldrei að setja lög sem þú ætlar ekki að fylgja. Rétt eins og þú átt ekki að setja reglur heima gagnvart börnunum þínum sem þú fylgir ekki eftir. Þá tekur enginn mark á þér.“

Iðnnám verði markaðssett betur

Talið berst að stöðu iðnmenntunar. Hvort slík menntun hafi verið gerð nógu spennandi og hvernig mögulegt sé að bæta stöðu hennar. Guðrún segir að skoðanakannanir á meðal félagsmanna sýni að þeim sé mjög umhugað um nýliðun innan greina sinna. Þeim sé þess vegna mjög umhugað um menntun. Það þurfi að gera betur.

„Ég er markaðsmanneskja og ég held að við höfum bara ekki markaðssett iðnnám nógu vel,“ segir hún. Bóknámið hafi tekið fram úr og það virðist tala beinna til ungs fólks en iðnnámið hafi gert. Guðrún segir að Samtök iðnaðarins séu að gera sitt besta til að kynna iðngreinar fyrir ungu fólki. Meðal annars með vefnum Nema hvað!

„Árið 2014 voru 12 prósent grunnskólanema sem völdu iðnnám. Á síðasta ári voru þau 14 prósent og við erum búin að setja okkur þau markmið að 2025 verði þetta hlutfall 25 prósent og það verði komið upp í 30 prósent árið 2030. Þetta eru mjög háleit markmið og við þurfum að hafa okkur öll við ef við ætlum að ná þessu,“ segir Guðrún. Hún segir að það þurfi að breyta viðhorfi fólks til iðnnáms. Til dæmis ættu foreldrar að varast að gera bóknámi hærra undir höfði en verknámi. Og fólk verði að varast að halda því fram að einhverjar bóknámsgreinar geti gefið betur af sér en iðngreinar.

„Ef þú tekur ævitekjur þessara hópa, þá eru ævitekjur margra iðnaðarmanna hærri en margra lögfræðinga eða lækna. Meðaltekjurnar eru góðar, fólk fer fyrr út á vinnumarkaðinn. Það fer fyrr að kaupa sér íbúð og fyrr að greiða niður sínar skuldir. Og er oft með minni skuldbindingar. Því lengra nám kallar á hærri námslán. Við verðum alltaf að hafa í huga að hamingjan er ekki fólgin í peningum. Flestir eru fjörutíu til fimmtíu ár á vinnumarkaðnum og þá er nú betra að velja sér starfsgrein sem veitir manni gleði í öll þessi ár. Það verður að vera gaman í vinnunni.“

Lífeyrissjóðir bera ábyrgð

Guðrún er nýsest í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Hún segir lífeyrissjóðina standa sterkum fótum og hafa staðið vel af sér hrunið. „Ef þú tekur ávöxtun til lengri tíma þá er hún góð,“ segir hún.

Aðspurð segir Guðrún að sér finnist eðlilegt að lífeyrissjóðirnir, sem stórir hluthafar í mörgum fyrirtækjum, taki meiri þátt í stjórnum þeirra fyrirtækja sem þeir eigi hlut í.

„Mér finnst eðlilegt að sá sem á stóran hlut í fyrirtækjum hafi eitthvað um þau að segja. Þar liggja hagsmunir og að því leytinu til tel ég að lífeyrissjóðirnir eigi, í krafti eignarhalds, að veita aðhald. Það er mín persónulega skoðun,“ segir Guðrún.

Hún tekur VÍS sem dæmi, en á dögunum var deilt mikið á arðgreiðslutillögur sem stjórn VÍS hugðist leggja fyrir aðalfund en hætti svo við. „Ef þú ættir hlut í VIS, hefðir þú ekki í ljósi atburðarásarinnar reynt að stíga þar inn í? Hefðir þú ekki reynt að hafa áhrif þar, ef slík atburðarás verður þess valdandi að eignin þín í þessu félagi rýrnar? Á stór hluthafi, hvort sem það er lífeyrissjóður eða annar, að sitja passífur fyrir utan og horfa á það gerast? Mér finnst það bara rangt.“

Guðrún leggur áherslu á að fólk sem gegnir trúnaðarstörfum fyrir lífeyrissjóðina starfi þar eftir eigin sannfæringu en með hagsmuni sjóðsfélaga að leiðarljósi. Og hún telur að lífeyrissjóðirnir hafi samfélagslegu hlutverki að gegna. „Ekki síst í ljósi þess hvað þeir eru stórir á markaði,“ segir hún.

Gott að reka fjölskyldufyrirtæki

Guðrún er ekki einungis í forystu fyrir Samtök iðnaðarins heldur rekur hún Kjörís með fjölskyldu sinni. Hún segir frábært að reka fyrirtæki með fjölskyldu sinni. „Það er gott að reka fyrirtæki með þeim sem manni þykir vænst um. En það getur líka verið snúið. Við höfum séð það á Íslandi og erlendis að það eru mörg dæmi um það að svona félög splundra fjölskyldum. Við erum bara svo heppin held ég að okkur lánast að vinna saman og okkur líður vel,“ segir Guðrún um fjölskyldu sína. Fjölskyldan sé samrýmd, verji stundum saman bæði í vinnunni og utan hennar.

„Móðir okkar á meirihluta í fyrirtækinu og hún ræður öllu. Það er þannig að sá sem á meirihluta hann ræður öllu í krafti þess valds. Mamma heldur mjög þétt utan um hópinn sinn. En það er mikill kærleikur á milli okkar systkina, allra fjögurra. Okkur líður mjög vel saman og það hafa aldrei komið upp stór átök. Við erum ekki alltaf sammála. En við rífumst sjaldan og ræðum hlutina þeim mun meira.“

Guðrún hefur verið orðuð við framboð til forseta Íslands og meðal annars var opnuð síða á Facebook þar sem hún var hvött til þess að gefa kost á sér. Hún segist þó alls ekki hafa slíkt á prjónunum.

„Nei, ég trúi því ekki að þú sért að spyrja mig að þessu,“ segir hún létt í bragði þegar blaðamaður vekur máls á þessu. Hún segist telja að þeir sem hafi skorað á sig hafi verið að grínast. „Venjuleg kona úr Hveragerði verður ekki forseti,“ segir Guðrún.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×