Innlent

Kísilver undirbúin í Þorlákshöfn, Helguvík og Grindavík

Tvær kísilmálmverksmiðjur eru nú í undirbúningi í landinu, í Þorlákshöfn og Helguvík, og jafnframt er verið að undirbúa kísilhreinsiverksmiðju við Grindavík. Þær gætu lent í samkeppni við álver í Helguvík um þá orku sem verður í boði á næstunni en jafnframt er líklegt að Landsvirkjun hugi að neðri Þjórsá til að mæta orkuþörfinni.

Kanadíska fyrirtækið Timminco áformar kísilmálmverksmiðju í Þorlákshöfn en samningsrammi um hana var undirritaður snemma á þessu ári. Eftir að forgangur Timminco að orku Hverahlíðarvirkjunar rann út í maí hefur í raun staðið yfir óformlegt kapphlaup milli þess og álvers í Helguvík um hvort verkefnið verði fyrr tilbúið að tryggja sér skuldbindandi orkusamning við Orkuveitu Reykjavíkur um 90 megavatta raforku.

En það er við fleiri aðila sem Norðurál gæti þurft að keppa við um orkuna. Íslenska kísilfélagið, sem bandarískt fyrirtæki stendur á bak við, er í viðræðum við Landsvirkjun og HS Orku um kaup á minnst 60 megavöttum fyrir kísilmálmverksmiðju sem það áformar að reisa í Helguvík, við hlið álversins. Þá hefur nú bæst við enn einn keppinauturinn, erlent félag sem undirbýr verksmiðju í Eldvörpum við Grindavík til að hreinsa kísil fyrir sólarsellur, og ræðir við Landsvirkjun og HS Orku um að kaupa minnst 66 megavött raforku, - og hefur í forgjöf það skilyrði Grindavíkurbæjar að minnst helmingur orku Eldvarpa nýtist innan bæjarmarkanna.

Ekki er víst að öll þessi verkefni þurfi að rekast á. Ákveði Landsvirkjun að verða við ósk Norðuráls um allt að 80 megavött til Helguvíkur er talið að umframorka í kerfinu ásamt Búðarhálsvirkjun dugi til, jafnframt því að mæta nýgerðum samningi vegna Alcan í Straumsvík. Til að verða við óskum kísilvera þyrfti Landsvirkjun þá að horfa til neðri Þjórsár, en þar á fyrirtækið þrjá fullhannaða en umdeilda virkjunarkosti.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×