Sport

Kimbo Slice er allur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kimbo Slice.
Kimbo Slice. vísir/getty
Einn skrautlegasti bardagakappinn í MMA, Kimbo Slice, er látinn. Hann var aðeins 42 ára gamall.

Kimbo, sem hét réttu nafni Kevin Ferguson, varð fyrst þekktur fyrir að taka þátt í bardögum sem fóru fram í bakgörðum í Flórída. Þeir bardagar slógu í gegn á netinu og gerðu hann að stjörnu. Hann varð síðar bardagamaður í UFC en hafði verið á mála síðasta árið hjá Bellator-bardagasambandinu.

Þó svo Kimbo hafi ekki verið á meðal þeirra bestu þá var hann gríðarlega vinsæll bardagamaður. Bjó yfir miklum persónutöfrum og var vinalegur risi er hann steig út úr búrinu.

Síðasti bardagi hans var í Bellator gegn Dada 5000 en hann varð einnig stjarna í bakgarðarslagsmálum. Það var uppgjör götustrákanna. Kimbo vann á rothöggi í þriðju lotu og Dada lá á milli heims og helju á sjúkrahúsi í kjölfarið. Kimbo féll svo á lyfjaprófi skömmu síðar.

Hann átti að berjast næst í London þann 16. júlí. Ekki liggur fyrir hvað dró Kimbo til dauða.

Hann skilur eftir sig eiginkonu og sex börn.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×