Lífið

Kaupmennskan kvödd á nýju ári

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Hlöðver og Guðrún hafa rekið Art Form á Skólavörðustíg síðastliðin sautján ár en verslunin lokar í janúar.
Hlöðver og Guðrún hafa rekið Art Form á Skólavörðustíg síðastliðin sautján ár en verslunin lokar í janúar. Vísir/GVA
„Við erum búin að vera hérna síðan 1997, það er bara kominn tími á okkur að hætta,“ segir Hlöðver Sigurðsson sem ásamt eiginkonu sinni, Guðrúnu Sigurðardóttur, hefur rekið gjafavöruverslunina Art Form á Skólavörðustíg.

Verslunina hafa þau hjónin rekið síðastliðin sautján ár en til stendur að loka henni í lok janúar.

Hlöðver segir þau hjónin hafa haft gaman af rekstrinum og það verði undarlegt að kveðja Skólavörðustíg og kaupmennskuna eftir öll þessi ár.

„Ég verð sjötugur í byrjun næsta árs en konan er nokkrum árum yngri. Nú förum við bara í rosalega langt sumarfrí,“ segir Hlöðver glaður í bragði og hlær.

Hann segir þau hjónin stefna á að halda áfram að hafa gaman af lífinu og ekki kvíða því að lítið verði um að vera. „Við ætlum bara að hafa gaman af barnabörnunum og öllu sem fylgir því að komast á þennan aldur og hafa ánægju af lífinu.“

Vikurnar fyrir jól eru mesti álagstíminn í verslunarrekstri og ávallt mikið um að vera en Hlöðver segir að þrátt fyrir það sé jólatíminn alltaf skemmtilegur.

„Það er alltaf gaman að spjalla við fólkið sem hefur komið ár eftir ár. Við viljum þakka þessu ágæta fólki sem mundi alltaf eftir okkur. Það er það besta í viðskiptum.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×