Menning

Kaupir drekatár fyrir Tomma bróður sinn

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Hrói og Þöll, besta vinkona hans.
Hrói og Þöll, besta vinkona hans.
Hrói höttur er kominn til Íslands og verður á ferð og flugi um allt land í sumar ásamt alls konar öðrum ævintýraverum úr smiðju Leikhópsins Lottu. Hann féllst á að svara nokkrum spurningum Krakkasíðunnar.

Ertu fluttur úr Skírisskógi?

"Nei, í rauninni bý ég enn þá í Skírisskóginum. Ævintýraskógurinn rúmar nefnilega svo marga mismunandi heima. Innan Ævintýraskógarins má til dæmis finna Hálsaskóg þar sem Lilli klifurmús og Mikki refur búa, Dverghamra, sem eru heimili dverganna sjö, og líka Skírisskóg, þar sem ég bý með mömmu og Tomma litla bróður mínum."

 

 Hverjir fleiri en þú búa í Ævintýraskóginum?

"Hérna í Ævintýraskóginum búa allar þær ævintýrapersónur sem þér getur dottið í hug. En mest hangi ég með Þöll, sem er besta vinkona mín. Já, og Þyrnirós, sem er alveg frábær stelpa líka."



 Hvernig kynntistu Þyrnirós?

"Ég kynntist henni í gegnum Þöll, sem er sameiginleg vinkona okkar. Við erum öll á sama aldri svo við leikum okkur oft saman. Oftast erum við að æfa okkur að skjóta af boganum. Ég get sko sagt þér það að ég skaut einu sinni epli af höfði Þallar í 30 metra fjarlægð! Þyrnirós stóð reyndar ekki alveg á sama en ég vandaði mig og þrotlausar æfingar síðustu ára eru greinilega að skila sér."



Ertu hættur að ræna þá ríku til að gefa þeim fátæku?

"Ég vil ekki meina að ég ræni þá ríku. Því það er alls ekki fallegt að stela. Ég tel mig frekar vera að sækja aftur peningana sem Jóhann prins tók af íbúum Ævintýraskógarins. Hann skildi þá eftir slyppa og snauða þannig að þeir áttu ekki einu sinni peninga til að kaupa sér mat, hvað þá lyf. Tommi bróðir minn er afskaplega veikur og hann þarf að fá drekatár á hverjum degi svo honum líði aðeins betur, ég sæki peninga til Jóhanns á meðan hann sefur og fyrir þá kaupi ég drekatár fyrir Tomma litla."



Er Litli-Jón með þér í Ævintýraskóginum?

"Ég hef ekkert hitt hann lengi. Ætli Þöll hafi ekki tekið við hlutverki hans sem lífsförunautur minn."



En fógetinn í Nottingham?

"Fógetinn í Ævintýraskóginum er afskaplega ógeðfelld kona. Hún er með Jóhanni prinsi í liði og hún leggur sig alla fram við að gera líf okkar hinna í Ævintýraskóginum óbærilegt."



Hvað finnst þér skemmtilegast að gera í skóginum?

"Ég hef langmest gaman af því að skjóta af boganum mínum. Ég, Þöll og Þyrnirós förum oft lengst inn í skóginn og æfum okkur tímunum saman. Við syngjum líka mikið og förum í alls konar leiki, eins og eltingaleik og feluleik."



Kann Þyrnirós að skjóta af boga?

"Já, ég er að kenna henni það. Hún er auðvitað ekki alveg jafn góð í því og ég, enda er ég búin að æfa mig miklu meira en hún. En hún er mjög efnileg og henni finnst þetta gaman svo ég efast ekki um að hún á fljótlega eftir að verða sannkallaður bogfimimeistari."



Hver er allra besti vinur þinn?

"Það er hún Þöll, við elskum hana öll."



Hvað er það hræðilegasta sem þú lendir í?

"Að horfa upp á fólk vera beitt óréttlæti eða misrétti. Fyrir mér eru allir jafnir og allir eiga sama tilveruréttinn, hvort sem þeir eru fátækar ekkjur eða ríkir prinsar. Mér finnst mikilvægt að vera alltaf góður við alla, menn og dýr og hjálpa þeim sem minna mega sín."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×