Viðskipti innlent

Kauphallardagurinn í HR haldinn í fyrsta sinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, og Ari Kristinn Jónsson, rektor HR.
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, og Ari Kristinn Jónsson, rektor HR.
Kauphöllin og Háskóli Reykjavíkur munu næstkomandi laugardag halda Kauphallardaginn í HR í fyrsta sinn. Um er að ræða fræðsludag um málefni tengd fjármálum og sparnaði almennings ásamt skemmtun fyrir fjölskylduna, eins og segir í tilkynningu frá NASDAQ OMX og HR.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur daginn með því að hringja inn Kauphallardaginn í HR. Tólf mismunandi örnámskeið verða í boði, sem fjalla um markaðinn í sinni víðustu mynd. Hvernig fyrirtæki verður til, hvers vegna það fer á markað, um fjárfestingar á markaði, áhættu og mögulegan ávinning og hvernig þær geta haft áhrif á sparnað almennings. Einnig munu verða kynnt mismunandi sparnaðarform fyrir ólíka aldurshópa ásamt því að hugtökin atferlisfjármál og fjármálalæsi verða skoðuð.

„Í könnun sem gerð var á meðal 1200 kvenna í tengslum við verkefnið Fjölbreytni á markaði sl. vor kom í ljós yfirgnæfandi áhugi á því að kynna sér betur hvernig markaðurinn virkar til þess að geta tekið upplýstar og sjálfstæðar ákvarðanir um eigin fjárhag og fá betri yfirsýn um hvernig hægt væri að hafa áhrif á þróun sparnaðar m.t.t. áhættu og ávinnings.“, sagði Páll Harðarson, forstjóri NASDAQ OMX Iceland í tilkynningunni.

„Fjöldamörg námskeið hafa verið haldin fyrir almenning í kjölfar þessa verkefnis sem hafa verið vel sótt af báðum kynjum. Við vonumst til að Kauphallardagurinn í HR verði vel sóttur af almenningi, bæði af þeim sem fjárfesta sjálfir á markaði og þeim sem láta nægja að greiða í lífeyrissjóðinn sinn. Þeim mun meiri þekking sem er á markaðnum á meðal okkar, þeim mun meira aðhald verður honum veitt,“ segir Páll.

„Eitt af lykilhlutverkum okkar í HR er að miðla þekkingu til að auka lífsgæði einstaklinga og efla samkeppnishæfni hér á landi. Þekking á fjármálum er mikilvægur þáttur í lífsgæðum og því er afskaplega ánægjulegt að halda fyrsta Kauphallardaginn í HR.  Þar gefst fólki tækifæri til að fræðast um alla helstu þætti fjármála, hvort sem verið er að taka fyrstu skref í sparnaði með íbúðarkaup í huga eða fjárfesta í hlutabréfum á markaði," segir Ari Kristinn Jónsson rektor HR.

Dagskráin stendur yfir frá eitt til fjögur á laugardaginn og hægt er að sjá dagskrána hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×