Innlent

Katrín baðst afsökunar á að hafa kallað Sigurð Inga forsætisráðherra

Bjarki Ármannsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, verðandi forsætisráðherra, tekur til máls á Alþingi í morgun. Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, hlýðir á.
Sigurður Ingi Jóhannsson, verðandi forsætisráðherra, tekur til máls á Alþingi í morgun. Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, hlýðir á. Vísir/Pjetur
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir trúnaðarbrest milli stjórnmálamanna og almennings í kjölfar uppljóstrunar um eigur Íslendinga í skattaskjólum enn til staðar. Sigurður Ingi Jóhannsson, verðandi forsætisráðherra, segir að skoða þurfi siðareglur þingmanna og hagsmunaskráningu vegna málsins.

Þetta kom fram í máli þingmanna í óundirbúnum fyrirspurnartíma sem nú stendur yfir á Alþingi. Katrín sagði í fyrirspurn sinni til Sigurðar Inga að viðbrögð ríkisstjórnarinnar við umfjöllun um skattaskjól Íslendinga, meðal annarra fráfarandi forsætisráðherra, ekki hafa verið þau að fordæma þá staðreynd að Íslendingar virðist eiga heimsmet í eignum í skattaskjólum. Á þessu þurfi að taka.

„Hæstvirtur forsætisráðherra sagði hinsvegar þegar hann var spurður að það væri auðvitað talsvert flókið að eiga peninga á Íslandi,“ sagði Katrín og átti við Sigurð Inga. „Ætlar hæstvirtur forsætisráðherra að halda áfram að verja heimsmet Íslendinga eða ætlar hann að taka upp aðra stefnu í þessu máli?“

Sigurður Ingi sagði í svari sínu meðal annars að hann væri ekki enn orðinn forsætisráðherra. Sá fjöldi Íslendinga sem hefði kosið að setja eignir sína á lágskattasvæði væri vissulega fordæmalaus en ekkert væri að því að gera það á réttan og löglegan hátt.

Það væri hinsvegar verulega í ólagi að gera það ólöglega og sagðist Sigurður Ingi vilja taka tækifærið til að hvetja alla þá sem slíkt gera að koma heim peninga sína og gera hreint fyrir sínum dyrum. Það þurfi sömuleiðis að fara yfir það á þingi hvort lagaumhverfið sé nægilega gott hvað það varðar.

„Við þurfum öll hér inni að axla þá ábyrgð. Það er mín skoðun,“ sagði Sigurður Ingi. „Ég biðst forláts á því að kalla hæstvirtan atvinnuvegaráðherra forsætisráðherra en það er erfitt að átta sig á ráðherraskipan í þessari ríkisstjórn,“ sagði Katrín meðal annars síðar.

Óttarr Proppé, formaður Bjartar framtíðar, gerði siðareglur þingmanna að umræðuefni í fyrirspurn sinni til Sigurðar Inga og spurði hvernig þeim málum yrði háttað í ríkisstjórn hans.

„Mig langar til að spyrja út í fílinn í stofunni,“ sagði Óttarr. Við erum hér samankomin í kjölfar algjörs siðrofs í íslenskum stjórnmálum. Þessir dagar hafa verið algjör farsi sem náði hámarki í gærkvöldi með leikriti í stigagangi Alþingisshússins.“

Hann sagði mikla reiði enn í garð ráðamanna hjá almenningi vegna þess.

„Því vil ég spyrja, í nýrri útgáfu af ríkisstjórn, hvernig hyggst ráðherra haga málum siðareglna ráðherra? Hvernig mun hann ganga á eftir því að ráðherrar muni sinna þeim málum?“

Sigurður Ingi segir það þurfa að vera skýrt fyrir hvað slíkar reglur standi. Hagsmunaskrá Alþingismanna sé til að mynda ekki nægilega skýr.

„Varðandi siðareglur, þá er augljóst að eitt af þeim verkum sem við þurfum að ráðast í sé hvort að sú skráning sé rétt og hvort þær reglur séu nægilega skýrar,“ sagði Sigurður Ingi. „Ég held að þetta sé eitt af þeim verkefnum sem við verðum að nálgast af auðmýkt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×