Innlent

Kastaði einhverfu barni með valdi út úr Hólabrekkuskóla

Karen Kjartansdóttir skrifar

Sex ára dreng með asperger-heilkenni var hent út með valdi í frímínútur af starfsmanni sem átti að veita honum stuðning. Móðir drengsins segir hann í áfalli eftir atvikið og sárnar mjög að starfsmaðurinn eigi enn að vinna með barninu. Skólayfirvöld harma atvikið.

Bára Ósk Jónsdóttir á sex ára dreng sem glímir við ýmisleg vandamál. Í leikskóla hafði hann ávallt manneskju með sér til stuðnings en í haust fór hann í sex ára bekk í Hólabrekkuskóla. Móðir hans segir aðstæður þá hafa breyst mjög til hins verra.

Drengurinn þjáist af miklum kvíða og fælni, sérstaklega reyna frímínúturnar á hann. Hann hefur því fengið leyfi til að dvelja inni á meðan þær standa yfir.

Móðirin segir að fyrir skömmu hafi stuðningsfulltrúi hafið störf við skólann og átt hann að hjálpa drengnum að þrauka frímínúturnar. Móðirin segir starfsmanninn eitthvað hafa misskilið hlutverk sitt- hann hafi hent barninu út á skokkaleistunum og peysu og læst dyrunum á eftir þótt frost væri úti og barnið skelfingu lostið.

Sem betur fer hafi annar starfsmaður séð drenginn úti og komið honum til aðstoðar í snatri. Bára Ósk vill ekki að starfsmaðurinn sinni barni hennar aftur.

„Honum var hent út með ofbeldi að mér skilst. Þetta er eitthvað sem á ekki að gerast í skólum, hann er bara sex ára," segir Bára.

Hún segir að skólagangan hafi reynt mjög á barnið sitt og þetta atvik hafi ekki orðið til að auðvelda því lífið. Drengurinn þurfi mun meiri stuðning en hann hafi fengið en hjálpin sé ekki í boði vegna sparnaðar.

Skólastjórinn segist harma að þetta atvik hafi komið upp. Starfsmaðurinn hafi fengið misvísandi skilaboð. Farið hafi verið yfir allt verklag eftir að málið kom upp og leitað verði lausna í samvinnu við foreldrana.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×