Innlent

Karlmaður fróaði sér fyrir framan 14 ára dreng í gufuklefa

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Maðurinn braut gegn drengnum í gufuklefa sundlaugar.
Maðurinn braut gegn drengnum í gufuklefa sundlaugar. Vísir/Getty
Hæstiréttur hefur staðfest 8 mánaða óskilorðsbundinn fangelsisdóm Héraðsdóms Reykjaness yfir karlmanni fyrir kynferðisbrot gegn 14 ára dreng. Brotið áttu sér stað í mars á síðasta ári.

Skýrsla var tekinn af drengnum í Barnahúsi og aftur fyrir dómi. Lýsti drengurinn málsatvikum sem svo að hann hafi verið nýbúinn á sundæfingu þegar hann fór ásamt fjölmörgum öðrum unglingum í gufuna. Þau fóru síðan en hann ákvað að vera um kyrrt og slaka aðeins lengur á. Hann hafi þá verið einn inni í klefanum ásamt tveimur öðrum mönnum. Annar þeirra fór síðan fljótlega út en drengurinn hafi ákveðið að liggja í smástund í viðbót.

Þá hafi maðurinn farið að spjalla við hann. Drengurinn hafi svo tekið eftir því þegar hann stóð upp og ætlaði að fara að maðurinn var að fróa sér. Hann hafi farið með höndina inn fyrir sundbuxur sínar og tekið kynfæri sín út.

Drengnum fannst þetta mjög óviðeigandi og hélt í fyrstu að hann væri að sjá eitthvað vitlaust. Þegar hann var svo að ganga út spratt maðurinn upp, gengið að drengnum, gripið um axlir hans og káfað á kynfærum hans utanklæða. Þá hafi hann boðið drengnum tott. Drengurinn kvaðst ekki hafa vitað hvort maðurinn hafi verið að bjóðast til að totta drenginn eða hvort hann vildi að drengurinn myndi totta sig.

Drengurinn fór svo út og greindi vinum sínum, sem enn voru í sundi, frá því sem gerst hafði. Hann var í miklu sjokki. Vinir drengsins hvöttu hann til að segja sundlaugarverði frá brotinu, sem hann og gerði. Kallað vart til lögreglu sem kom stuttu síðar. Maðurinn var í kjölfarið handtekinn og hald lagt á tölvu hans. Þar fannst ein ljósmynd og fimm myndbönd sem sýndu barnaklám.

Ljósmyndir úr eftirlitsmyndavélum sýndu manninn með „reistan lim“ í heitum potti

Maðurinn var bæði ákærður fyrir að hafa brotið á drengnum í gufuklefanum og fyrir vörslu barnakláms. Fyrir dómi játaði maðurinn að hafa barnaklám í fórum sínum en neitaði því að hafa fróað sér fyrir framan drenginn og káfað svo á kynfærum hans. Hann hafi aldrei verið einn í klefanum með drengnum. Það var því orð gegn orði varðandi það sem gerðist þar sem engin vitni voru að brotinu.

Dómurinn mat framburð mannsins ótrúverðugan að öllu leyti þar sem hann stangaðist á við framburð fjölda vitna sem staðfestu meðal annars að maðurinn og drengurinn hafi verið einir í gufuklefanum þegar brotin áttu sér stað. Þá voru einnig lagðar fram ljósmyndir úr eftirlitsmyndavélum laugarinnar sem sýndu manninn sitja innan um unglingana í heitum potti. Á myndunum virðist maðurinn vera með „reistan lim“, eins og það er orðað í dómnum.

Framburður drengsins var hins vegar talinn stöðugur og trúverðugur, auk þess sem hann var í samræmi við framburð vitna, meðal annars frá fulltrúa Barnahúss.

Maðurinn var því bæði dæmdur fyrir kynferðisbrotið og vörslu barnakláms. Hæfileg refsing hans var metinn 8 mánaða fangelsi.

Ekki þótti rétt að skilorðsbinda dóminn að hluta eða heild þar sem maðurinn þar sem maðurinn hafði áður verið dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir blygðunarsemisbrot og umferðarlagabrot. Sá dómur hafði ítrekunaráhrif.

Þá var hann dæmdur til greiðslu alls sakakostnaðar og drengnum miskabætur. Þá var tölva hans gerð upptæk. Dóminn í heild sinni má sjá hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×