Fótbolti

Kári valinn í lið 3. umferðarinnar á EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kári í baráttunni við David Alaba í leiknum í gær.
Kári í baráttunni við David Alaba í leiknum í gær. vísir/epa
Kári Árnason gleymir gærdeginum eflaust seint. Miðvörðurinn átti þá frábæran leik þegar Ísland lagði Austurríki að velli, 2-1, og tryggði sér þar með sæti í 16-liða úrslitum.

Kári, sem leikur með Malmö í Svíþjóð, var valinn maður leiksins af UEFA fyrir frammistöðu sína gegn Austurríki, í fimmtugasta landsleik sínum.

Vefsíðan WhoScored.com heldur utan um tölfræði mótsins og gefur leikmönnum einkunn byggða á frammistöðu þeirra í ýmsum tölfræðiþáttum.

Kári fékk 8,54 í einkunn hjá WhoScored fyrir frammistöðu sína gegn Austurríki og var valinn maður leiksins.

Sjá einnig: Kári: Ólýsanlegt að gera þetta með mínum bestu vinum

Kári vann sjö skallaeinvígi í leiknum, hreinsaði sex sinnum frá, komst fyrir þrjú skot, bjargaði einu sinni á línu auk þess að leggja fyrra mark Íslands upp fyrir Jón Daða Böðvarsson.

Þessi frammistaða dugði Kára einnig til að komast í lið umferðarinnar hjá WhoScored.com en hann er með Englendingnum Nathaniel Clyne og Slóvökunum Martin Skrtel og Tomás Hubocan í vörninni.

Sjá einnig: Einkunnir íslenska liðsins: Kári bestur

Wales á flesta fulltrúa í liði 3. umferðar riðlakeppninnar, eða þrjá. Þetta eru þeir Gareth Bale, sem fékk hæstu einkunn allra í 3. umferðinni (9,97), Aaron Ramsey og Joe Allen.

Ísland átti einnig fulltrúa í liði 1. umferðarinnar hjá WhoScored.com; markvörðinn Hannes Þór Halldórsson sem átti frábæran leik gegn Portúgal.


Tengdar fréttir

Arnór: Leyfum þjóðinni að dreyma aðeins lengur

Arnór Ingvi Traustason innsiglaði sigur íslenska liðsins á Austurríki í gær með marki í uppbótartíma. Eftir orrahríð að marki íslenska liðsins afgreiddu okkar menn þetta með skyndisókn sem Arnór batt endahnútinn á.

Sigurlaunin sæt á Stade de France í gær

Íslenska landsliðið í fótbolta komst í 16 liða úrslit á Evrópumótinu í gær þegar strákarnir okkar unnu Austurríki, 2-1, á Stade de France. Eftir erfiðan leik voru það varamennirnir sem innsigluðu sigurinn í stærsta leik liðsins frá upphafi.

Heimir: Menn voru bara að missa sig

Leikmenn, þjálfarar og starfslið Íslands missti sig úr gleði þegar strákarnir skoruðu sigurmarkið gegn Austurríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×