Handbolti

Kári Kristján í eins leiks bann fyrir loftbyssuna | Myndir

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kári Kristján verður ekki með.
Kári Kristján verður ekki með. vísir/vilhelm
Kári Kristján Kristjánsson, línumaður ÍBV, verður ekki með Eyjaliðinu í þriðja leik liðsins gegn Haukum í undanúrslitum Olís-deildar karla í handbolta annað kvöld.

Kári var í gær úrskurðaður í eins leiks bann af aganefnd HSÍ fyrir rauða spjaldið sem hann fékk í öðrum leik liðanna í Eyjum.

Hann hlaut útilokun með skýrslu „vegna grófrar óíþróttamannslegrar framkomu gagnvart andstæðingi“ eins og það er orðað í úrskurði aganefndar.

Kári Kristján reiddist mjög út í Hákon Daða Styrmisson, leikmann Hauka og fyrrverandi samherja sinn hjá ÍBV, og miðaði að honum ímyndaðri byssu að Haukamanninum. Dómarar leiksins voru ekki lengi að reka Kára Kristján út af fyrir atvikið.

Hákon Daði yfirgaf Eyjamenn fyrr á tímabilinu og gekk í raðir Hauka en hann hefur reynst sínum gömlu félögum gríðarlega erfiður í einvíginu. Hann skoraði tíu mörk í fyrsta leiknum og tólf mörk leik tvö í Eyjum.

Að missa Kára út er mikið áfall fyrir ÍBV sem verður að vinna á Ásvöllum annað kvöld ef það ætlar ekki í sumarfrí.

Hér má sjá myndir af atvikinu á Facebook-síðu Hauka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×