Körfubolti

Kanínur landsliðsþjálfarans með sópinn á lofti

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Craig Pedersen og Arnar Guðjónsson, aðstoðarþjálfari Svendborg og landsliðsins, eru komnir í undanúrslit.
Craig Pedersen og Arnar Guðjónsson, aðstoðarþjálfari Svendborg og landsliðsins, eru komnir í undanúrslit. vísir/andri marinó
Svendborg Rabbits, lið Craig Pedersen, landsliðsþjálfara Íslands, er komið í undanúrslit dönsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta.

Kanínurnar sópuðu Randers Cimbria í sumarfrí, 3-0, með sigri í þriðja leiknum á heimavelli í kvöld, 106-91.

Randers átti aldrei möguleika í Svendborg í rimmunni, en fyrsta leikinn unnu Kanínurnar með 32 stiga mun og leik tvö á útivelli með tíu stiga mun.

Svo virðist sem fjögur efstu liðin hafi nokkra yfirburði í dönsku úrvalsdeildinni en þau eru öll komin í undanúrslit eftir að hafa öll sópað sínum andstæðingum í átta liða úrslitunum.

Svendborg mætir deildarmeisturum Bakken Bears í undanúrslitum en þar verður við ramman reip að draga. Bangsarnir og Horsens höfðu yfirburði í deildinni og þá hefur Bakken Bears verið besta liðið í Danmörku í fjölmörg ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×