Fótbolti

Kanadískt lið skrifaði söguna í bandarísku deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jozy Altidore fagnar sigrinum í nótt.
Jozy Altidore fagnar sigrinum í nótt. Vísir/Getty
Toronto FC komst í gær í úrslitaleikinn í bandarísku MLS-deildinni í fótbolta eftir sigur í framlengdum seinni leik á móti Montreal Impact.

Toronto FC vann Montreal Impact 5-2 í nótt og þar með 7-5 samanlagt. Liðið mætir Seattle Sounders í úrslitaleiknum 10. desember næstkomandi.

Toronto FC er fyrsta kanadíska liðið sem kemst í úrslitaleikinn í bandarísku deildinni. Liðið fékk bikar í leikslok sem sigurvegari Austurdeildarinnar.





Bæði liðin í úrslitaleiknum hafa aldrei komist svona langt en Toronto kom inn í MLS-deildina 2007 og  Seattle Sounders tveimur árum síðar. Þetta verður einnig í fyrsta sinn sem ekkert stofnlið MLS-deildarinnar er í úrslitaleiknum.

Montreal Impact vann fyrri leikinn 3-2 á heimavelli sínum en staðan var 3-2 fyrir Toronto FC þegar venjulegum leiktíma lauk í gær. Það varð því að framlengja leikinn.

Benoit Cheyrou og Tosaint Ricketts skoruðu mörk með tveggja mínútna millibili í framlengingunni og tryggðu Toronto sæti í úrslitaleiknum. Cheyrou hafði áður komið inn á sem varamaður.

Alls komust fimm leikmenn á blað hjá Toronto í leiknum en hin mörkin skoruðu þeir Armando Cooper, Jozy Altidore og Nick Hagglund.

Dominic Oduro kom Montreal í 1-0 á 24. mínútu en Cooper og Altidore voru búnir að koma Toronto yfir fyrir hálfleik. Ignacio Piatti jafnaði metin á 53. mínútu en Nick Hagglund skoraði þriðja mark Toronto á 68. mínútu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×