Innlent

Kallar eftir dæmum um leka frá Sigmundi Davíð

Jakob Bjarnar skrifar
Steingrímur óskar þess að Sigmundur Davíð manni sig upp og nefni dæmi um leka um persónulega hagi fólks úr stjórnsýslunni -- önnur en þau sem snúa að Lekamálinu, með stóru L-i.
Steingrímur óskar þess að Sigmundur Davíð manni sig upp og nefni dæmi um leka um persónulega hagi fólks úr stjórnsýslunni -- önnur en þau sem snúa að Lekamálinu, með stóru L-i.
Steingrímur J. Sigfússon segir ummæli forsætisráðherra í Kryddsíld Stöðvar 2, þess efnis að sérkennilegt sé hversu stórt lekamálið varð því lekar um persónulega hagi fólks séu í raun mjög algengir í íslenskri stjórnsýslu, fráleit og kallar eftir dæmum.

„Menn eru náttúrulega að velta upp ýmsum hliðum á þessu máli og þetta er orðið mjög stórt mál í umræðunni. En það er töluvert öðruvísi oft að skoða mál í fortíðinni þegar hægt er að líta yfir allt sviðið heldur en að meta þau jafnóðum,“ sagði Sigmundur Davíð áður en hann lét eftirfarandi orð falla:

„Það er ekki óalgengt að það séu lekar úr ráðuneytum eða stofnunum, það er í raun og veru bara mjög algengt á Íslandi og oft lekar um mál sem varða persónulega hagi fólks. Það hefur aldrei áður orðið að máli eins og þessu. Þess vegna hefur ráðherrann ekki séð það fyrir hversu stórt mál þetta yrði,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í Kryddsíld, áramótaþætti Stöðvar 2 um Lekamálið svokallað og hafa þau ummæli hans vakið mikla athygli. Formenn stjórnarandstöðuflokkanna urðu forviða vegna ummæla og Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar spurði Sigmund Davíð hvort þetta væri virkilega svo og svaraði Sigmundur að sérstakir lekamenn hefðu stundað leka fyrir fyrri ríkisstjórn.

Ýmsir hafa furðað sig á þessum ummælum forsætisráðherra. Steingrímur J. Sigfússon var fjármálaráðherra síðustu ríkisstjórnar og má ætla að Sigmundur Davíð hafi ekki síst verið að beina spjótum sínum að honum og þá Jóhönnu Sigurðardóttur fyrrverandi forsætisráðherra.

„Það er nú erfitt að henda reiður á svona löguðu fyrr en maðurinn færir einhver rök fyrir svona fullyrðingu, nefnir einhver dæmi og það er eitthvað handfast til að takast á við. Annars er þetta nú bara hinn almenni plagsiður Sigmundar Davíðs og margra í stjórnarliðinu núna að ef þau eru í vandræðum og að þeim sótt að þá er alltaf gripið til þess ráðs að segja að hlutirnir hafi verið enn verri í tíð fyrri ríkisstjórnar. En, að blanda þessu stóra og grafalvarlega Lekamáli, þar sem lögreglurannsókn kom til og ráðherra sagði af sér vegna, saman við eitthvað svona óútskýrt tal – það er auðvitað alveg dæmalaust. Og af engu hafandi fyrr en maðurinn mannar sig þá uppí að tala þá einu sinni þannig að hægt er að mæta honum með rökum. Þegar hann nefnir þá dæmin og færir rök fyrir þessari fráleitu fullyrðingu, þá er hægt að tala við hann. Fyrr ekki,“ segir Steingrímur J. Sigfússon.

Vísir reyndi að ná tali af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni til að inna hann nánar eftir þessum ummælum, og þá með það fyrir augum að fá fram dæmi, en ekki tókst að ná tali af forsætisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×