Viðskipti innlent

Kaffitár hagnaðist um 1,6 milljón

Sæunn Gísladóttir skrifar
Aðalheiður Héðinsdóttir er eigandi Kaffitárs.
Aðalheiður Héðinsdóttir er eigandi Kaffitárs. Vísir/Stefán
Árið 2014 hagnaðist Kaffitár um 1,6 milljón króna. Hagnaður dróst töluvert saman milli ára en hann nam 86,4 milljónum árið á undan. Aðalheiður Héðinsdóttir, eigandi Kaffitárs, segir í samtali við Vísi að hækkun á öllum rekstrarliðum hafi verið meðal ástæðna þess að hagnaður dróst saman. „Það er aldrei nein ein skýring, þetta eru margir samvirkandi þættir. Það var hækkun á öllum rekstrarliðum hjá okkur. Við vorum með dýrt verð á kaffi og útsöluverð hjá okkur endurspeglaði ekki endilega innkaupsverðið," segir Aðalheiður.

Eignir félagsins nema 766,6 milljónum króna og hækkuðu milli ára. Eigið fé í árslok nam 349,3 milljónir króna og eiginfjárhlutfall 46%. Heildarlaunakostnaður fyrirtækisins var 503,4 milljónir króna og fjöldi stöðugilda að meðaltali 94 á árinu.

Rekstur ársins var að mestu hefðbundinn. Snemma árs var ráðist í að endurnýja útlit umbúða fyrir kaffiframleiðslu fyrirtækisins og í framhaldinu í umfangsmikla kynningu og auglýsingar, segir í ársreikningi.

Eigendur Kaffitárs eru Aðalheiður Héðinsdóttir og Eiríkur Hilmarsson, bæði eiga þau 50% í félaginu.

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×