Innlent

Kafbátar í íslenskri landhelgi yrðu að vera sýnilegir ofansjávar

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Kafbátar verða að sigla ofansjávar og hafa fána sinn uppi þegar þeir sigla í landhelgi annarra ríkja. Sérfræðingur í hafrétti segir að sænsk stjórnvöld geti beitt kafbát í landhelgi Svíþjóðar vopnavaldi, sinni hann ekki tilmælum um að fara úr landhelginni. 

Svíar hafa síðustu daga leitað að kafbáti sem var í Kanholmsfirði í sænskri landhelgi án tilkynningar. Grunsemdir eru um að kafbáturinn, eða neðansjávarfarið, tilheyri Rússum.

Fimmtán herskip sænska sjóhersins, þyrlur og minni bátar leituðu að kafbátnum frá því á föstudag. Á fimmtudag sl. hleruðu sænsk yfirvöld talstöðvarsamtal sem fór fram á neyðarrás rússneska kafbátaflotans sem ýtir stoðum undir þá kenningu að báturinn sé mögulega laskaður.

Rússar og Bandaríkjamenn með sína túlkun

Í þjóðarétti er umdeilt hvort tilkynna þurfi fyrirfram um friðsamlega för herskipa í landhelgi. Bæði Rússar og Bandaríkjamenn telja að ekki sé þörf á tilkynningu. Annað gildir hins vegar um kafbáta sem sigla með leynd. Samkvæmt Hafréttarsáttmálanum (Hafréttarsamningi SÞ) þurfa kafbátar í friðsamlegri för að sigla á yfirborðinu og sýna fána sinn þegar þeir sigla í landhelgi annarrra ríkja.  

„Í þjóðarétti er umdeilt að ríki þurfi leyfi strandríkis fyrir för innan landhelgi. Svíar hafa þá reglu að ef um herskip er að ræða þá þarf það að tilkynna um komu sína eftir diplómatískum leiðum. Ef það er ekki gert þá er það brot á sænskum lögum frá 1966,“ segir Bjarni Már Magnússon lektor í lögfræði við lagadeild HR en hann er með doktorspróf í hafrétti. 

Friðsamleg ferð kafbáts um landhelgi annars ríkis þarf að vera greið og óslitin samkvæmt Hafréttarsáttmálanum. Þá má kafbáturinn ekki stunda upplýsingaöflun, rannsóknir eða mælingar. Bjarni Már segir að það sem gerðist í sænsku landhelginni sé brot á Hafréttarsáttmálnum. „Þetta er í raun mjög gróft brot, bæði á Hafréttarsáttmálanum og þjóðarétti yfir höfuð,“ segir hann.

Svíar gætu beitt vopnavaldi

Hvernig gætu Svíar brugðist við, finnist farið eða kafbáturinn á annað borð? Fyrsta skref Svía væri að biðja kafbátinn um að yfirgefa landhelgina. Bjarni Már segir að næsta skref væri beiting harðari úrræða eins og vopnvalds til að þvinga viðkomandi kafbát úr landhelginni. 

Sænsk stjórnvöld þyrftu alltaf að beita meðalhófs við beitingu slíks úrræðis.

Það má velta fyrir sér hvaða reglur giltu ef sambærilegar aðstæður kæmu upp hér á landi. Um för erlendra herskipa og kafbáta um íslenska landhelgi gildir tilskipun frá 1939 um aðgang herskipa og herloftfara erlendra ríkja, sem ekki eiga í ófriði, að íslensku forráðasvæði.

Samkvæmt þessari tilskipun sem hefur enn lagagildi er erlendum herskipum ríkja, sem ekki eiga í ófriði, heimilt að koma í landhelgina og á hafnir ef koma þeirra hefur verið fyrirfram tilkynnt. Erlendur kafbátur þarf að vera sýnilegur ofansjávar meðan hann er innan íslenskrar landhelgi. 


Tengdar fréttir

Dularfullur kafbátur í Svíþjóð

Rússneskt skip sem er sérstaklega búið tækjum til leitar á hafsbotni siglir nú í átt að sænska Skerjagarðinum þar sem umfangsmikil leit stendur yfir að óþekktum kafbát.

Leitin skilar litlum árangri

Sænski herinn hélt í gær áfram að leita að óþekktu neðansjávarfarartæki í sænska skerjagarðinum úti fyrir Stokkhólmi. Grunur hefur beinst að Rússum, en engar staðfestingar fengist á neinu frekar en fyrri daginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×