Erlent

Kafarar fundu óþekktan kafbát á hafsbotni undan strönd Svíþjóðar

Atli Ísleifsson skrifar
Grunur leikur á að rússneskir kafbátar hafi reglulega siglt inn á sænsk hafsvæði í Eystrasalti án heimildar.
Grunur leikur á að rússneskir kafbátar hafi reglulega siglt inn á sænsk hafsvæði í Eystrasalti án heimildar. Vísir/AFP
Kafarar hafa fundið kafbát á hafsbotni, ekki langt frá austurströnd Svíþjóðar. Báturinn er með kýrillískt áletrun utan á sem bendir til að um rússneskan kafbát sé að ræða. Ekki sjást neinar skemmdir utan á bátnum.

„Það bendir til að svo kunni að vera að áhöfnin sé enn um borð,“ segir Dennis Åsberg, einn leitarmanna í samtali við Expressen, en hann starfar hjá fyrirtækinu Ocean X Team. Kafararnir segja að upplýsingar um hnit um hvar ætti að leita hafi komið frá íslensku fyrirtæki. Ekki er greint frá því nánar hvaða fyrirtæki um ræðir.

„Við gengum út frá þeim hnitum sem þeir höfðu gefið okkur og fljótlega fundum við kafbátinn,“segir Peter Linberg í samtali við Expressen.

Í frétt blaðsins segir að báturinn hafi fundist 2.750 metrum frá austurströnd Svíþjóðar, þó að nánari upplýsingar um staðsetningu liggi ekki fyrir að svo stöddu.

Leitarmennirnir segja að svo virðist sem um sé að ræða tiltölulega nýjan kafbát.

Aftonbladet spyr Anders Kallin, upplýsingafulltrúa sænska hersins, um hvernig standi á því að íslenskt fyrirtæki finni kafbát á sænsku hafsvæði en ekki sænski sjóherinn. „Það kunna að vera margar ástæður fyrir því að flakið sé að finna þarna, en ég vil ekki velta vöngum yfir því. Nú er hann fundinn og við lítum á myndirnar.“

Tomas Ries, lektor við Försvarshögskolan í Svíþjóð, segir í samtali við Expressen, að ef þetta hafi verið bátur sem hafi verið að sigla þarna með vitund sænskra yfirvalda hefði verið beðið um aðstoð. „Þetta bendir til þess að báturinn hafi verið að sinna leynilegu verkefni og eitthvað hafi farið úrskeiðis. Þetta er mjög alvarlegt.“

Um er að ræða flak af 20 metra löngum kafbáti og þriggja metra breiðum. Sjá má fyrstu myndirnar af bátnum í frétt Expressen.


Tengdar fréttir

Svíar hættir að leita að kafbátnum í skerjagarðinum

Sænski herinn hefur hætt leitinni í sænska skerjagarðinum en í heila viku hefur her manna leitað torkennilegs hlutar sem sjónarvottar sáu þar á floti. Talið var líklegt að um rússneskan kafbát hefði verið að ræða en leitin bar þó engan árangur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×