Erlent

Kærir Trump fyrir ærumeiðingar

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Summer Zervos, fyrrum keppandi í raunveruleikaþættinum The Apprentice, hefur kært Donald Trump verðandi bandaríkjaforseta fyrir ærumeiðingar. Zervos hefur kært Trump fyrir kynferðislega áreitni á meðan á tökum á þáttunum stóð árið 2007 og segir hún að Trump hafi logið að bandarísku þjóðinni um athæfi sitt.

Zervos segir Trump vera „lygara og kvenhatara“ sem „vanvirti hana og sverti mannorð hennar.“

Hún segir að Trump hafi áreitt sig á fundi þeirra á hóteli í Beverly Hills og að hann hafi þrýst kynfærum sínum að henni þegar hún hafi reynt að bægja honum frá sér.

Afneitar ásökununum

Í aðdraganda kosninganna í nóvember steig fjöldi kvenna fram og sakaði Trump um kynferðislega áreitni. Hann sagði ásakanirnar „rangar og fáránlegar“ og sagðist ætla að kæra konurnar fyrir ærumeiðingar. Hann hefur þó ekki enn farið í mál við neina þeirra.

Málsókn Zervos byggir á því að Trump hafi svert mannorð hennar með því að neita frásögninni og með því að saka hana og aðrar konur um að ljúga til um kynferðisofbeldi. Hún bað Trump um að taka ummæli sín til baka en hann hefur ekki orðið við því.

„Þar sem Trump hefur ekki tekið orð sín til baka, líkt og ég óskaði eftir, hef ég engan annan kost en að kæra hann til að verja mannorð mitt,“ sagði Zervos á blaðamannafundi í Los Angeles.

Zervos segir einnig að hún sé tilbúin til að draga kæruna til baka ef Trump verði við ósk hennar og dragi orð sín til baka og viðurkenni að framkoma hans hafi verið óviðeigandi.

Trump tekur við embætti forseta á föstudaginn næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×