Innlent

Kærir mann fyrir ummæli í athugasemdakerfi Vísis

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Dagur Snær Sævarsson.
Dagur Snær Sævarsson. Mynd/dagur
Dagur Snær Sævarsson hefur lagt fram kæru til lögreglu á hendur karlmanns á þrítugsaldri fyrir ummæli í athugasemdakerfi Vísis í gær.

Í ummælakerfi við fréttina, sem fjallaði um að nektarmyndir af íslenskum fermingarstúlkum væru birtar á erlendum vefsíðum, spurði maðurinn: „Link?“

Í kærunni segir Dagur að allir sem stundi netið skilji þessa bón mannsins, hann sé að biðja um slóð vefsíðunnar sem birtir myndirnar af ungu stúlkunum.

„Með þeirri beiðni er maðurinn að biðja alla þá sem lesa, þ.m.t. undirritaðan, um að dreifa efni sem sýnir börn á kynferðislegan hátt.“

Í samtali við Vísi segist Dagur vilja vekja athygli á því að ekki sé hægt að segja hvað sem er í athugasemdakerfum.

„Mér finnst það vera rosalega mikil gjöf að við getum fengið að segja skoðanir okkar á fréttum og það er tímaspursmál hvenær við förum að læra þetta.“

Hann segir að hafi maðurinn ætlað að vera kaldhæðinn hafi það mistekist.

„Kaldhæðni virkar illa á netinu. Kannski skilja nánustu vinir þínir hana en það eru margir sem misskilja. Í þessu tilfelli – ef hann hefur ætlað að vera kaldhæðinn – þá misskildi einhver spurninguna og birti nafn stúlku sem nektarmynd er af á erlendu síðunni. Það er ákveðið mannorðsmorð.“

Dagur hafði samband við lögreglu um leið og hann sá athugasemd mannsins í gær. Dagur segir lögreglu ekki hafa viljað aðhafast í málinu. Lögreglan hafi bent honum á að senda inn skriflega kæru, sem hann svo gerði.

„Ég vil vekja athygli á þessu – að við getum ekki sagt hvað sem er í kommentakerfunum.“

„Þetta átti að vera djók. Mér þykir mjög leiðinlegt að þetta skuli hafa farið fyrir hjartað á einhverjum. Ég eyddi þessu út skömmu eftir að hafa sett þetta inn,“ segir maðurinn, sem kærður er, í samtali við fréttastofu.


Tengdar fréttir

Ábyrgðin ekki stúlknanna

Framkvæmdastjóri Barnaheilla hefur svarað hópi sem sendi henni bréf og gangrýndi ummæli hennar í kjölfar frétta um nektarmyndir af unglingsstúlkum á netinu.

Nektarmyndir af stúlkum á fermingaraldri á spjallsíðu

Erlend spjallsíða hefur að geyma myndir af fáklæddum íslenskum stúlkum sem eru allt niður í fjórtán ára. Lögregla rannsakar málið og reynir að fá síðunni lokað. Alvarlegt brot gegn réttindum barns segir framkvæmdastjóri Barnaheilla.

Dreifa klámmyndum af ungum stúlkum en sleppa

Dæmi eru um að lögreglan hafi haft upp á mönnum sem birtu myndir af ungum stúlkum á erlendum vefsíðum en þeir sloppið við ákæru því þeir gerðust ekki brotlegir í íslenskri lögsögu,.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×