Skoðun

Kæri Illugi

Laufey María Jóhannsdóttir og Benedikt Traustason skrifar
Kæri Illugi

Í fjárlagafrumvarpi ársins 2015 er gert ráð fyrir að 916 einstaklingum verði sparkað úr framhaldsskólunum. 916 einstaklingar sem að vilja mennta sig í framhaldsskólum en fá það ekki vegna aldurs. Þú hefur sagt að framhaldsskólinn á að vera ungmennaskóli og á þess vegna að henda framtíð 916 einstaklinga út á gaddinn? Litið hefur þú til frænda okkar á norðurlöndunum en þar eru sérstök úrræði fyrir eldri nemendur.

Í nágrannalöndum okkar er gert ráð fyrir að framhaldsskólanemar séu ekki eldri en u.þ.b. 25 ára. Í Svíþjóð er boðið upp á ókeypis nám fyrir eldri nemendur á vegum sveitarfélaga í sérstökum fullorðinsfræðslustofnunum. Auk þess sem að námið er ókeypis fá nemendur í 100-400 evra styrk á mánuði til að standa straum af kostnaði t.d. við bókakaup.

 

Þau úrræði sem eru í boði á Íslandi fyrir þá sem hyggjast ljúka námi eftir 25 ára aldur eru frumgreinadeildir, fjarnám, dagskóli og kvöldskóli. Nái þínar hugmyndir fram að ganga munu a.m.k. tveir síðastnefndu kostirnir ekki standa lengur til boða. Eftir standa frumgreinadeildirnar en tækifæri við að sækja nám við þær eru ekki sambærileg að því leiti að það er talsvert kostnaðarsamara. Frumgreinadeildirnar eru reknar af sjálfseignarstofnunum. Er verið að einkavæða nám fyrir þennan aldurshóp?

Eins og kom fram í Fréttablaðinu er gífurlegur verðmunur á innritunargjöldum í framhaldsskóla sem eru um 13.000 kr eða t.d. Háskólabrú Keilis en þar kostar önnin að jafnaði 225.000 kr. Þar að auki stendur nám á slíkum brautum þeim aðeins til boða sem að hafa lokið grunnáfögnum í framhaldsskólum.

Okkur þykir ljóst að ef standa á vörð um jöfn tækifæri til að sækja sér nám verður að bjóða upp á ný úrræði. Nú hefur þú sagt að komið verði til móts við þennan hóp sem er í sjálfu sér rétt. Tækifærin standa þessu fólki til boða en eru ekki sambærileg. Hér sitja ekki allir við sama borð vegna þess að kostnaðurinn við þessi úrræði eru margfalt meiri en kostnaðurinn við það nám sem  stendur til boða í framhaldsskólum fyrir yngri aldurshópinn.

Kæri Illugi, þú talar um aðgengi náms, þú talar um fjölbreytileika í námi en þú bregst við með skerðingu og setur upp vegatálma í námsleiðum. Við viljum sjá skilvirkari aðgerðir, við viljum sjá betri úrlausnir, við viljum ekki fljótfærni í vinnubrögðum við skipulagningu menntakerfisins. Við vonum kæri Illugi að þar séum við sammála.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×