Skoðun

Kæra Katrín Jakobsdóttir

Þorvaldur Þorvaldsson skrifar
Sæl vertu, Katrín, og takk fyrir svarið í Fréttablaðinu 2. febrúar. Það olli mér hins vegar nokkrum vonbrigðum að þú skyldir ekki svara spurningu minni sem var skýr, hvort VG styddi eða væri á móti viðskiptabanninu gagnvart Rússlandi. Almennur fyrirvari segir lítið um það.

Mitt mál fól alls ekki í sér að VG bæri ábyrgð á utanríkisstefnu Íslands. Hins vegar verða allir að bera ábyrgð á sinni afstöðu. Og líka á því að taka ekki afstöðu. Stjórnmálabaráttan hlýtur að snúast um að sameinast um málstað sem er undirstaða fyrir afstöðu til mikilvægra mála. Það er lítið gagn í því að velta bara vöngum og láta svo kylfu ráða kasti þegar til þess kemur að taka ákvarðanir, eins og dæmin sanna.

Heildarmyndin

Ég tek undir með þér að horfa verður á heildarmyndina og það taldi ég mig gera í mínu bréfi. Það felur líka í sér að leggja alla þætti á vogarskálarnar en ekki bara einstaka útvalda. Endursameining Krímskaga við Rússland var ekki alvarlegasta brot gegn fullveldi þjóða í þessu máli. Það var hins vegar valdaránið í Úkraínu í febrúar 2014, sem einmitt svokölluð „samstaða vestrænna ríkja“ stóð á bak við. Samstaða vestrænna ríkja er einmitt eitt af gælunöfnum heimsvaldastefnu Bandaríkjanna og Evrópusambandsins.

Heildarmyndin af framvindunni í Úkraínu og Rússlandi er nægilega skýr til að taka afstöðu til réttmætis viðskiptabannsins. Vinstrafólki ber skylda til að berjast gegn heimsvaldastefnunni, sem hefur farið eldi og brennisteini um flesta heimshluta undanfarna áratugi. Barátta gegn heimsvaldastefnunni er eina leiðin til friðsamlegra og sanngjarnra lausna á alþjóðamálum.

Í ljósi þessa vona ég að þú skoðir hug þinn betur og takir efnislega afstöðu til málsins. Ef þú færð flokkinn til að sameinast um andstöðu við viðskiptabannið mun hann styrkjast og hugsanlega skapast möguleiki á samstöðu milli Alþýðufylkingarinnar og VG í því máli, og jafnvel fleirum.




Skoðun

Sjá meira


×