Erlent

Juncker vill ná fram sanngjörnu samkomulagi fyrir Breta

Atli Ísleifsson skrifar
Juncker undirbýr nú að taka við starfi framkvæmdastjórnar ESB af José Manuel Barroso síðar á árinu.
Juncker undirbýr nú að taka við starfi framkvæmdastjórnar ESB af José Manuel Barroso síðar á árinu. Vísir/AFP
Jean-Claude Juncker, verðandi forseti framkvæmdastjórnar ESB, hafnar því að vera sambandsríkjasinni og segist vilja vinna að sanngjörnu samkomulagi fyrir Breta vegna aðildar þeirra að sambandinu.

Juncker undirbýr nú framkvæmdastjórnartíð sína í Brussel, en hann mun að óbreyttu taka við embættinu af José Manuel Barroso síðar á árinu. Evrópuþingið mun kjósa um Juncker á mánudaginn, en hann var tilnefndur af leiðtogaráðinu í lok síðasta mánaðar.

Á vef EU Observer segir að Juncker hafi rætt við Evrópuþingmenn úr hópi íhaldsmanna (ECR) í gær, en hópurinn er nú sá þriðji stærsti á Evrópuþinginu að loknum kosningum sem fram fóru í maí síðastliðnum. Á Juncker að hafa sagt þeim að hann styðji gerð samkomulags varðandi hagnýt atriði þar sem tillit yrði tekið til krafna Breta, en þingmenn ECR eru efasemdarmenn um Evrópusamrunann.

Breskir stjórnmálamenn og fjölmiðlar hafa dregið upp mynd af Juncker sem ofstækisfullum sambandsríkjasinna og kallaði The Sun hann meðal annars „hættulegasta mann Evrópu“.

Stórt í stórum málum, smátt í smáum málum

Lúxemborgarinn segist þó að það eigi alls ekki að líta á hann sem einhvern „skúrk“. Segir hann það einfaldlega ekki mögulegt að ná fram markmiðum Evrópu án þess að vera með aðildarríkin með sér í liði. „Þjóðir eru ekki tímabundin uppfinning í mannkynssögunni. Þær eru varanlegar. Ég vil ekki að mér sé lýst sem einhverjum „erki-sambandsríkjasinna““. Segist hann ekki einu sinni skilja hvað sé átt við með slíku. „Sem ríkisborgari smáþjóðar veit ég fullvel um hvað þjóðir snúast og mikilvægi þeirra.“

Juncker segir að hann vilji að Evrópa sé „stórt í stórum málum og smátt í smáum málum“. Þetta rímar vel við orðræðu Davids Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sem segist vilja koma ákveðnum völdum ESB aftur til aðildarríkjanna fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðild Bretlands sem fyrirhuguð er árið 2017, nái Cameron endurkjöri í þingkosningum á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×