Körfubolti

Jordan spilar með Dallas Mavericks næsta vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
DeAndre Jordan.
DeAndre Jordan. Vísir/EPA
DeAndre Jordan hefur ákveðið að yfirgefa Los Angeles Clippers og ætlar miðherjinn öflugi að semja við Dallas Mavericks.

Bandarískir fjölmiðlar segja frá því í kvöld að Jordan muni skrifa undir fjögurra ára samning sem gefur honum 80 milljónir dollara í aðra hönd eða 10,6 milljarða íslenskra króna.

Jordan ræður sjálfur hvort að hann klárar fjórða árið og gæti því aftur verið með lausan samning sumarið 2018.

DeAndre Jordan hefur spilað með Los Angeles Clippers síðan að hann kom í deildina árið 2008 en hann lék með háskólaliði Texas A&M og er frá Texas.

DeAndre Jordan var með 11,5 stig og 15,0 fráköst að meðaltali í leik í deildinni auk þess að verja 2,2 skot og hitta úr 71 prósent skota sinna utan af velli.

Jordan  var efstur í deildinni í bæði fráköstum og skotnýtingu og er þetta annað árið í röð sem hann afrekað það en það hafði ekki gerst síðan að Wilt Chamberlain náði því 1971-72 og 1972-73.

DeAndre Jordan kemst nú út úr skugga Chris Paul og Blake Griffin sem eru stærstu stjörnur Los Angeles Clippers liðsins. Jordan var með 14,9 stig og 18,5 fráköst í leik í þeim fimmtán leikjum sem Griffin var ekki með á síðasta tímabili.

Jordan er hinsvegar skelfileg vítaskytta en aðeibns 39,7 prósent víta hans rötuðu rétta leið á síðasta tímabili sem leiddi til þess að mörg lið stunduðu það að senda hann vísvitandi ítrekað á vítalínuna.

"Við höldum að hann verði okkar besti leikmaður á komandi árum," sagði Mark Cuban, eignandi Dallas Mavericks, í viðtali við ESPN.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×