Innlent

Jón Gnarr ætlar að breyta nafni sínu í Houston

Birgir Olgeirsson skrifar
Jón vonast til að nafnabreytingin ytra verði viðurkennd heima á Íslandi.
Jón vonast til að nafnabreytingin ytra verði viðurkennd heima á Íslandi.
Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur, ætlar að láta breyta nafni sínu í Bandaríkjunum. Jón hefur lengi barist fyrir því að fá Gnarr viðurkennt sem eftirnafn en hefur ekki haft erindi sem erfiði í baráttu sinni við mannanafnanefnd og hefur því þurft að bera nafnið Jón Gnarr Kristinsson í þjóðskrá.

Jón greindi frá því á Facebook í dag að hann sé kominn með bandaríska kennitölu sem gefur honum rétt til að fara í dómshúsið í Houston og breyta nafni sínu úr Jón Gnarr Kristinnsson í Jón Gnarr. „Og ætti þá að njóta sömu undanþágu og innflytjendur til að fá að halda ættarnöfnunum,“ skrifar Jón sem segir þessa nafnabreytingu kosta um eitt hundruð dollara og að hann hafi þegar rætt við vinkonu sína sem er lögfræðingur í Houston þar sem hann starfar sem rithöfundur við Rice-háskólann.

Jón hefur gagnrýnt tilveru mannanafnanefndar undanfarin ár eftir að honum var meinað að bera ættarnafnið Gnarr og benti til að mynda á að mannanafnalögin nái aðeins yfir hluta Íslendinga. „Hverskonar lög eru það sem mismuna fólki á þennan hátt? Af hverju má t.d. Elín Hirst bera ættarnafnið Hirst en ég ekki Gnarr? Er Hirst flottara? Íslenskara? Eru öll dýrin jöfn en bara sum jafnari en önnur?.“ spurði Jón í júlí síðastliðnum.


Tengdar fréttir

Jón Gnarr flytur til Houston

"Ég held að þetta gæti verið upphafið að einhverju mjög athyglisverðu ævintýri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×