Lífið

Jón Ásgeir á nýrri einkaþotu til að vígja nýja lúxussnekkju

Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörg Pálmadóttir eru flogin til Jamaíka þar sem þau njóta lífsins á nýrri lúxussnekkju.
Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörg Pálmadóttir eru flogin til Jamaíka þar sem þau njóta lífsins á nýrri lúxussnekkju. MYND/ANTON

Athafnamaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson flaug ásamt eiginkonu sinni Ingibjörgu Pálmadóttur til Jamaíka seinnipartinn í gær. Fararkosturinn var glæný einkaþota Jóns Ásgeirs af gerðinni Falcon 2000 og tilgangur ferðarinnar er að vígja nýja lúxussnekkju þeirra hjóna.

Ekki er langt síðan Jón Ásgeir fékk afhenta einkaflugvélina. Hún er hin glæsilegasta, kolsvört og kostar samkvæmt heimildum Vísis um tvo milljarða íslenskra króna. Vélin, sem er af gerðinni Falcon 2000, er sömu gerðar og þær vélar sem Jón Ásgeir hefur nýtt sér undanfarin ár með leigufyrirtækinu NetJet.

Snekkjan er einnig hin glæsilegasta, vel yfir 30 metrar á lengd og herma heimildir Vísis að hún kosti ekki undir tveimur milljörðum.

Pálmi Haraldsson og eiginkona hans eru gestir þeirra Jóns Ásgeirs og Ingibjargar á snekkjunni í Jamaíka.MYND/ANTON

Í för með Jóni Ásgeiri og Ingibjörgu voru meðal annars góðvinur Jóns Ásgeirs og viðskiptafélagi Pálmi Haraldsson í Fons og kona hans Halla Rannveig Halldórsdóttir sem og Sybil Kristinsdóttir, systir Bolla í 17, sem er ein besta vinkona Ingibjargar.

Jón Ásgeir og Ingibjörg gengu í það heilaga 17. nóvember síðastliðinn en náðu varla að njóta hveitibrauðsdaganna vegna anna Jóns Ásgeirs í málefnum FL Group.

Og veðrið er fínt á Jamaíka því samkvæmt veðurspá má búast við 28 stiga hita og smáskúrum í dag.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×