Körfubolti

Jón Arnór átti stóran þátt í mögnuðum Meistaradeildarsigri Unicaja

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jón Arnór spilaði frábærlega í kvöld.
Jón Arnór spilaði frábærlega í kvöld. vísir/getty
Jón Arnór Stefánsson átti stórleik fyrir Unicaja Málaga í kvöld þegar liðið vann Anadolu Istanbúl, 93-90, í níundu umferð 16 liða úrslita Meistaradeildarinnar í körfubolta.

Heimamenn á Málaga voru miklu betri í fyrri hálfleik. Þeir unnu fyrsta leikhlutann, 22-15, og voru tólf stigum yfir í hálfleik, 52-40.

Gestirnir Frá Tyrklandi sóttu í sig veðrið í seinni hálfleik. Þeir unnu þriðja leikhlutann með níu stigum, 20-11, og aðeins munaði þremur stigum á liðunum fyrir lokafjórðunginn, 63-60.

Unicaja, sem hefur ekki gengið jafnvel í Meistaradeildinni og heima á Spáni, náði sex stiga forystu, 81-75, þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum, en lenti þá í basli.

Tyrkirnir skoruðu átta stig á móti einu og komust yfir, 83-82, þegar tvær mínútur voru eftir. En þá var komið að Jóni Arnóri Stefánssyni.

Í næstu tveimur sóknum nældi íþróttamaður ársins í villu á leikmenn Anadolu. Hann skoraði úr fjórum vítaskotum í röð og breytti stöðunni í 86-83 fyrir heimamenn.

Gestirnir jöfnuðu leikinn, 90-90, þegar fimm sekúndur voru eftir, en Ryan Toolson skoraði sigurkörfuna með þriggja stiga skoti þegar ein sekúnda var eftir. Frábær sigur Unicaja í höfn.

Jón Arnór spilaði 26 mínútur í leiknum og skoraði 15 stig auk þess sem hann tók tvö fráköst.  Þetta er þó aðeins annar sigur Unicaja Málaga í Meistaradeildinni, en það er á botni B-riðilsins ásamt Nizhny Novgorod.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×