Körfubolti

Jón Arnór: Var ekkert brjálæðislega góður

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jón Arnór stimplaði sig inn í Domino's deildina með látum.
Jón Arnór stimplaði sig inn í Domino's deildina með látum. Vísir/S2Sport
„Ég var frekar dapur og lélegur í byrjun leiks og eiginlega yfir allan leikinn. Það voru skiptingar í vörninni sem klikkuðu og það vantaði að stíga út. Þótt ég hafi klárað leikinn vel var ég heilt yfir ekkert brjálæðislega góður,“ sagði Jón Arnór Stefánsson í samtali við íþróttadeild 365 eftir að hafa skorað 33 stig í sigri KR á Tindastóli, 87-94, í kvöld.

Þetta var fyrsti leikur Jóns Arnórs í deildinni hér heima í rúm sjö ár og hann sýndi frábæra takta í Síkinu í kvöld. Hann segist þó eiga langt í land, enda verið frá vegna meiðsla undanfarna mánuði.

„Ég er að koma mér í form og er bara nýlega byrjaður að æfa körfubolta aftur. Ég á langt í land til að geta hjálpað liðinu af alvöru,“ sagði Jón Arnór sem setti m.a. niður fjóra þrista á rúmri mínútu undir lok leiksins í kvöld. Athygli vakti að honum stökk varla bros eftir að hafa sett fjórða þristinn niður.

„Ég reyndi bara að halda einbeitingu alveg þangað til í lokin og vildi ekki „jinxa“ þetta með því að tala alltof mikinn skít. Það var enn smá tími eftir á klukkunni,“ sagði Jón Arnór hinn hógværasti.

Hann kvaðst stoltur af þrautseigjunni sem KR-ingar sýndu í leiknum en þeir lentu mest 28 stigum undir í fyrri hálfleik.

„Ég er ánægður með hvernig við trúðum á sjálfa okkur allar 40 mínúturnar, þótt þetta hafi ekki litið vel út á tímabili. Ég er ofboðslega stoltur af því,“ sagði Jón Arnór. En hver var snúningspunkturinn í leiknum?

„Undir lok fyrri hálfleiks, þegar við settum smá pressu á þá og fengum blóðbragð á tennurnar. Það kveikti smá neista hjá okkur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×