Viðskipti innlent

Jólin komu snemma í þetta skiptið

Benedikt Bóas skrifar
Íslendingar ferðuðust mikið, versluðu fyrr en áður.
Íslendingar ferðuðust mikið, versluðu fyrr en áður. vísir/anton
Neyslumynstrið í jólaversluninni hefur breyst nokkuð og fór fyrr af stað fyrir nýliðin jól en áður. Hærra hlutfall jólaverslunar fór fram í nóvember en áður hefur sést. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.

Íslendingar keyptu meira á netinu fyrir þessi jól en áður. Í desember jókst fjöldi þeirra pakkasendinga sem Íslandspóstur sá um dreifingu á frá útlöndum, og ætla má að sé vegna netverslunar, um 64 prósent frá sama mánuði árið áður. Í nóvember og desember samanlagt nam þessi ársaukning pakkasendinga 61 prósenti. Mest aukning sendinga var frá Kína og öðrum Asíulöndum.

Flestir virðast kaupa sér föt og skó en þannig varð 1,7% samdráttur í veltu fataverslana og 2,8% samdráttur í skóverslun frá árinu á undan. Á sama tíma jókst velta í húsgögnum um 31,9%, velta stórra raftækja jókst um 12,6% og í byggingavöruverslunum var aukningin 21,8%.

Íslendingar ferðuðust einnig mun meira en áður fyrir þessi jól. Mikil aukning var í ferðir til útlanda síðustu tvo mánuði ársins. Brottfarir Íslendinga til útlanda gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar, samkvæmt talningu Ferðamálastofu, voru alls 86.424 í nóvember og desember, sem er 26% aukning í fjölda farþega frá sömu mánuðum árið áður.

Ferðamenn greiddu í desember með greiðslukortum sínum í íslenskum verslunum fyrir liðlega tvo milljarða króna. Það er fjórðungsaukning frá desember árið áður. Stærstur hluti erlendrar kortaveltu í verslunum í desember var til kaupa á dagvöru, eða 467 milljónir.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×