Íslenski boltinn

Jökull fer til HK í glugganum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jökull lék með ÍBV í fyrra.
Jökull lék með ÍBV í fyrra. vísir/vilhelm
Jökull I. Elísabetarson mun leika með HK í 1. deildinni seinni hluta tímabilsins en hann verður löglegur með liðinu þegar félagaskiptaglugginn opnar 15. júlí. Þetta staðfesti Jökull í samtali við Fótbolta.net í dag.

Jökull lék fimm leiki með KV í 2. deildinni í sumar en er hættur hjá Vesturbæjarliðinu. Jökull hefur átt við bakmeiðsli að stríða sem hann kennir gervigrasinu í Vesturbænum (heimavelli KV) um.

„Ég hef verið að kenna gervigrasinu í Vesturbænum um meiðslin og er þessa stundina í meðferð hjá sjúkraþjálfara og reyna koma mér í almennilegt stand áður en félagaskiptaglugginn opnar," sagði Jökull við Fótbolta.net.

„Pælingin er að klára tímabilið með HK, síðan sjáum við til með framhaldið. Stefnan var sett á að spila með KV í allt sumar en ég einfaldlega treysti mér ekki að æfa og spila á gervigrasinu í Vesturbænum. Það verður því að koma í ljós hvernig þetta gengur með HK.“

Jökull lék með ÍBV í Pepsi-deildinni í fyrra en þar áður lék hann með Breiðabliki um fjögurra ára skeið. Hann varð Íslandsmeistari með Blikum 2010 en hann hafði áður orðið meistari með KR í tvígang, 2002 og 2003.

HK vann ævintýralegan sigur á KA í síðustu umferð en það var fyrsti sigur liðsins síðan í 2. umferð. Kópavogsliðið er í 9. sæti 1. deildar, með níu stig eftir átta umferðir.


Tengdar fréttir

Ótrúlegur sigur HK

Aron Þórður Albertsson tryggði HK 3-2 sigur á KA í rosalegum leik í fyrstu deild karla í dag. KA var 2-1 yfir þegar uppbótartíminn fór af stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×