Innlent

Jóhanna meðal mestu kvenleiðtoga heims

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. Mynd/Stefán Karlsson
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, er í öðru sæti á lista tímaritsins Time yfir tíu mestu kvenleiðtoga heims sem birtur var í gær. Að mati tímaritsins er Julia Gillard, forsætisráðherra Ástralíu, sú áhrifamesta en í þriðja sæti er Cristina Fernández de Kirchner, forseti Argentíu. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, er í fimmta sæti og þá er Tarja Halonen, forseti Finnlands, í því áttunda.

Ástæða þess að Jóhanna er svo ofarlega á lista Time er meðal annars sögð vera sú að hún hafi mesta þingreynslu íslenskra alþingismanna og um árabil hafi hún verið meðal vinsælustu stjórnmálamanna landsins. Þá er tekið fram að hún sé fyrsta konan sem leiðir ríkisstjórn hér á landi og að sé hún fyrsti forsætisráðherrann á heimsvísu sem feli ekki samkynheigð sína. Í því samhengi er rifjað upp að fyrr í sumar gengu hún og sambýliskona hennar til margra ára í hjónaband þegar ný hjúskaparlög tóku gildi.

Á síðasta ári var Jóhanna í 74. sæti á lista Forbes-tímaritsins yfir 100 valdamestu konur heims. Flestar kvennanna á þeim lista voru stjórnendur í risafyrirtækjum víða um heim og til að mynda var Angela Merkel eini stjórnmálamaðurinn sem komst inn á topp tíu listann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×