Innlent

Jarðskjálftar fá á íbúa Hveragerðis

Íbúar í Hveragerði eru orðnir þreyttir á tíðum jarðskjálftum út frá Hellisheiðarvirkjun. Þeir hafa fundið vel fyrir þeim stærstu en önnur skjálftahrina varð á svæðinu í morgun.

Undanfarnar vikur hafa mælst þúsundir skjálfta á svæðinu en þá má rekja til jarðvarmavinnslu Orkuveitunnar við virkjunina. Ástæðan fyrir skjálftunum er sú að Orkuveitan er farin að dæla affallsvatni frá virkjuninni niður í sprungur á svæðinu. Skjálftarnir hafa mælst allt upp í þrjá richter og hafa þeir stærstu fundist vel í Hveragerði, en þeirra hefur einnig orðið vart í Mosfellsbæ og á Hvollvelli.

Valgerður Jónsdóttir býr í Hveragerði og segist vera orðin langþreytt á þessum stöðugu skjálftum.

„Þeir hafa verið nokkrir hér heima og það nötrar allt húsið þegar þetta kemur. Ég get alveg lofað þér því að mér langar oft að hlaupa út og koma ekkert aftur," segir Valgerður.

Hún segir fjölskyldu og vinnufélaga sína marga hverja hafa fundið fyrir stærstu skjálftunum og segir þá einnig vera þreytta á þessu ástandi. Enda séu bæjarbúar margir hverjir ekki búnir að jafna sig eftir stóru skjálftana árið 2008 og því vekji þessi smáskjálftar upp erfiðar minningar. Hún geti heldur ekki áttað sig á því þegar skjálfti kemur hvort að um jarðskjálfta tengda virkjunni er að ræða eða hvort að stór skjálfti sé að koma.

„Ég er ekkert búin að jafna mig eftir það sem gerðist hérna 2008. Alls ekki. Þetta var alveg svakalega mikill jarðskjálfti," segir Valgerður. „Ég stundum á nóttunni er ég hrædd að fara að sofa. Ég er bara vaknandi núna á nóttunni alltof oft. Það er bara hnútur í maganum og ég er ekki að tengja þetta við neitt annað en þetta. Mér líður bara ekki vel með þessar framkvæmdir."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×