Körfubolti

Jakob og félagar upplifðu martröð í þriðja leikhlutanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Sigurðarson.
Jakob Sigurðarson. Vísir/Andri Marinó
Jakob Sigurðarson og félagar hans í sænska liðinu Borås Basket töpuðu með 28 stiga mun á móti tyrkneska félaginu Türk Telekom, 114-86, í Evrópukeppninni, FIBA Europe Cup, í Boråshallen í kvöld.

Þetta leit mjög vel út fyrir sænska liðið í hálfleik en Tyrkir fóru afar illa með Jakob og félaga í þriðja leikhlutanum sem leikmenn Türk Telekom unnu á endanum með 28 stigum, 40-12.

Eftir þennan skelfilega þriðja leikhluta var á brattan að sækja fyrir Svíana og Tyrkir lönduðu öruggum sigri.

Jakob Sigurðarson var með 11 stig, 4 stoðsendingar og 5 fiskaðar villur í kvöld en aðeins 2 af 12 skotum hans rötuðu rétta leið.

Türk Telekom hefur þar með unnið tvo fyrstu leiki sína í riðlinum en Borås Basket á enn eftir að fagna sigri á þessu stigi keppninnar.

Borås Basket vann fyrsta leikhlutann 29-27 og var fimm stigum yfir í hálfleik, 56-51. Jakob var kominn með 7 stig og 3 stoðsendingar eftir fyrri hálfleikinn.

Borås-liðið byrjaði seinni hálfleikinn mjög illa og Tyrkir tóku frumkvæðið í leiknum með því að vinna fyrstu fimm mínútur þriðja leikhlutans 23-10.

Türk Telekom var síðan 23 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 91-68, og úrslit leiksins svo gott sem ráðin.

Borås Basket tapaði illa fyrir Telenet Oostende í fyrsta leiknum í milliriðlum en liðunum í 32 liða úrslitunum er skipt niður í átta fjögurra liða riðla og komast tvö efstu liðin í sextán liða úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×