Erlent

Ísraelar sjá ekki Palestínu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Miko Peled lýsir reynslu sinni í bókinni Sonur herforingja – ferðalag Ísraelsmanna um Palestínu.
Miko Peled lýsir reynslu sinni í bókinni Sonur herforingja – ferðalag Ísraelsmanna um Palestínu. Fréttablaðið/Anton brink
„Ísraelar vita ekki að Palestína er til,“ segir ísraelski friðarsinninn Miko Peled. „Þeir vita ekki að hvar sem maður er staddur í Ísrael þá er aðeins tíu mínútna akstur til Palestínu. Þeir vita ekki að einu sinni var þetta land allt Palestína. Þeir vita ekki að Palestínumenn eru til.“

Miko Peled er sonur ísraelsks herforingja, sem hét Matti Peled. Hann þakkar föður sínum fyrir að hafa kynnt menningu og tilveru Palestínumanna fyrir sér.

„Ég ólst upp á heimili þar sem þjóðrækni og síonismi voru í hávegum höfð, með öllum þeim goðsögnum um sköpun Ísraelsríkis sem því fylgja. Faðir minn var einn af herforingjunum í stríðinu 1967 og þekktur sem slíkur. En svo strax á fyrsta fundi ísraelska herráðsins eftir stríðið, þá stóð hann upp og sagði að við þyrftum að semja um frið við Palestínumenn.“

Á heimilinu talaði faðir hans hiklaust um Palestínumenn þegar fólk þorði ekki að taka sér þetta orð í munn.

„Við kölluðum þá hryðjuverkamenn, við kölluðum þá araba, við heyrðum aldrei þetta orð. En heima var faðir minn að tala um Palestínumenn og um PLO, Frelsishreyfingu Palestínumanna, sem var eins og að tala um sjálfan djöfulinn.“

Peled segir föður sinn hafa trúað á tveggja ríkja lausnina, þannig að Palestínumenn fengju Vesturbakkann og Gasasvæðið með takmörkuðum réttindum. Sjálfur telur hann tveggja ríkja lausnina vera blindgötu.

„Þetta er eitt ríki og verður það. Eina spurningin er hvort þetta verður aðskilnaðarríki með sérréttindi handa mér á kostnað Palestínumanna, eða á þetta að vera ríki þar sem borin er virðing fyrir réttindum allra íbúa? Við erum nýlenduherrarnir, rétt eins og hvíta fólkið í Suður-Afríku. Þannig er raunveruleikinn.“

Hann gerir sér litlar vonir um að þetta breytist á næstunni.

„Rasistasamfélög breytast ekki af fúsum og frjálsum vilja. Hvíta fólkið í Suður-Afríku lét af aðskilnaðarstefnunni vegna þess að það átti ekkert val, ekki vegna þess að það ákvað allt í einu að koma vel fram. Og það er held ég það sem þarf að gerast í Ísrael. Það þarf að sniðganga vörur, það þarf að samþykkja refsiaðgerðir og einangra Ísrael rétt eins og gert var við Suður-Afríku alveg þangað til ísraelskt samfélag áttar sig á því að það á engan annan kost en að leyfa raunverulegu lýðræði að verða að veruleika og virða réttindi Palestínumanna.“

Hvað með þann ótta við hryðjuverk sem Ísraelar segjast búa við alla daga? „Í fyrsta lagi er sá ótti ekki réttmætur. Og í öðru lagi þá er ekki við öðru en að búast en að þar sem kúgun er þar sé andspyrna. Það er ekki hægt að kenna andspyrnunni um, segja hana vandamálið, því það væri engin andspyrna ef ekki væri fyrir hernámið og kúgunina.“

Hann er spurður hvað þurfi til að opna augu Ísraela. „Það þarf að berja þá í hausinn. Þeir líta á alla andstöðu sem framlengingu á gyðingahatri. Þeir sjá ekki að þeir sjálfir geri nokkru sinni neitt rangt. Það eina sem hægt er að gera er að berja þá í hausinn svo þeir vakni og sjái að heimurinn hefur breyst, rétt eins og hvíta fólkið í Suður-Afríku. Dag nokkurn vöknuðu hinir hvítu íbúar Suður-Afríku og sáu að Nelson Mandela var orðinn forseti þeirra. Það var allt og sumt. Þetta þarf að gerast í Palestínu líka.“

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 30. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×