Innlent

Íslenskur læknir dæmdur í fimm ára skilorðsbundið fangelsi í Ungverjalandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Háskólinn í Debrecen. Emma Caroline stundaði nám við skólann er árásin átti að hafa verið framin.
Háskólinn í Debrecen. Emma Caroline stundaði nám við skólann er árásin átti að hafa verið framin. Vísir/Getty
Emma Caroline Fernandez, íslenski læknirinn sem ákærð var tilraun til manndráps sumarið 2012 er hún stundaði læknanám í Debrecen, var í gær dæmd í fimm ára skilorðsbundið fangelsi þar í landi fyrir alvarlega líkamsárás. Þetta kemur fram í frétt Debrecen Sun um málið.

Emma, sem starfaði sem læknir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands þangað til henni var veitt leyfi frá störfum vegna málsins hefur alla tíð haldið fram sakleysi sínu í málinu og segir lögfræðingur hennar að verulegir annmarkar hafi verið á rannsókn málsins í Ungverjalandi.

Sjá einnig: Íslensk kona ákærð í Ungverjalandi: Segir fórnarlambið ekki hafa mætt fyrir dómstóla

Hún var sökuð um að hafa byrlað vinkonu sinni, nígerískri skólaystur sinni, svefnlyf og barið hana tvívegis í höfuðið með hamri en Emma Caroline segir að meint fórnarlamb hennar hafi sviðsett atvikið.

Ekki náðist í Ingibjörgu Ólöfu Vilhjálmsdóttur, lögmann Emmu, við vinnslu fréttarinnar en í samtali við fréttastofu í október á síðasta ári sagði hún að verulegur vafi væri í málinu, sönnunargögn sem hún hafi reynt að koma á framfæri hafi ekki verið gefinn gaumur og sýni sem hefðu verið tekin í sambærilegu máli hér á landi ekki verið tekin.

Sjá einnig: Ákærð fyrir manndrápstilraun í Ungverjalandi: Veit ekki hvort hún hafi verið rekin eða ekki

„Hún í rauninni telur að þarna hafi verið sviðsettur glæpur. Það er ekki um að ræða höfuðkúpubrot í þessu máli. Þarna er um að ræða, að mér skilst, nokkur spor í höfuðið og það eru áverkar sem umbjóðandi minn telur að fórnarlambið svokallaða hafi valdið sér sjálf,“ sagði Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir, verjandi Emmu Caroline.

Ingibjörg segir að dæma hafi átt í málinu í september á síðasta ári en eftir að ungversk yfirvöld komust á snoðir um það að íslensk yfirvöld vissu af málinu hafi því verið frestað.

Sjá einnig: Læknir ekki framseldur þótt hún yrði dæmd sek

Í frétt Debrecen Sun um dóminn segir að nígeríska konan hafi ekki verið viðstödd réttarhöldin en að þrjár fyrri yfirlýsingar hennar og átta vitni hefðu þótt nógu sannfærandi til þess að dæma Emmu Caroline í fimm ára skilorðsbundið fangelsi.

Samkvæmt frétt Debrecen Sun hefur Emma Caroline átta daga eftir að hún fær dóminn í hendurnar til þess að áfrýja en samkvæmt 2. gr laga um framsal sakamanna má ekki undir neinum kringumstæðum framselja íslenska ríkisborgara.


Tengdar fréttir

Læknir ekki framseldur þótt hún yrði dæmd sek

Íslenskur læknir, sem grunaður er um mortilraun í Ungverjalandi, segir að um sviðsettan glæp sé að ræða. Konan starfar hér á landi. Verjandi segir rannsókninni vera ábótavant. Íslenskir ríkisborgarar eru ekki framseldir til annarra landa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×