Körfubolti

Íslensku stelpurnar sjóðheitar í sigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Rósa og Sara Rún í leik með íslenska landsliðinu.
Margrét Rósa og Sara Rún í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/stefán
Sara Rún Hinriksdóttir og Margrét Rósa Hálfdanardóttir voru allt í öllu hjá Canisius skólaliðinu í sigri á  Monmouth.

Íslensku stelpurnar voru stigahæstar í liði Canisius sem vann glæsilegan tuttugu stiga sigur.

Sara Rún var bæði stigahæst (17 stig) og frákastahæst (7) í sínu liði en Margrét Rósa var næststigahæst (16) og gaf flestar stoðsendingar (6). Þetta voru flestar stoðsendingar í einum leik hjá Margréti Rósu í bandaríska háskólaboltanum.





Sara Rún Hinriksdóttir er á sínu öðru ári í skólanum en hún kemur úr Keflavík. Margrét Rósa kemur úr Haukum en hún er tveimur árum eldri og á sínu þriðja ári í skólanum.

Saman hittu íslensku stelpurnar úr 13 af 19 skotum sínum þar af 5 af 6 skotum fyrir utan þriggja stiga línuna. Margrét Rósa hitti úr báðum þriggja stiga skotum sínum og klikkaði aðeins á 1 af 8 skotum sínum í leiknum.





Margrét Rósa kom alls að 13 körfum Canisius á þeim 25 mínútum sem hún spilaði í leknum en báðar íslensku stelpurnar voru að sjálfsögðu í byrjunarliðinu.

Þetta var annar sigur Canisius í sjö leikjum á tímabilinu og fyrsti sigur liðsins á móti liði úr MAAC-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×