Innlent

Íslenskættuð kona tæplega 110 ára

Guðrún Björg Björnsdóttir Johnson átti einungis eftir tvo mánuði í að ná 110 ára aldri þegar hún dó 1998. Guðrún Björg fæddist á Vopnafirði en flutti fjögurra ára gömul til Kanada. Tengdadóttir Guðrúnar segir lykilinn að löngum aldri að líkindum fólginn í því hve mjög hún elskaði börnin sín og þau hana. Guðfinna Einarsdóttir er elsti núlifandi Íslendingurinn en hún hefur líka verið talinn langlífust okkar allra fyrr og síðar. Það er hún líka vissulega ef einungis er miðað við þá sem hér hafa búið alla sína tíð. Guðrún Björg Björnsdóttir fæddist árið 1888 í Vopnafirði og flutti með foreldrum sínum til Manitoba í Kanada. Fréttastofan náði tali af Lilju Arnason, tengdadóttur Guðrúnar, í dag en Lilja á einnig íslenska foreldra - og var fjallkona á hundrað ára afmæli Íslendingafélagsins í Gimli 1989. Lilja segir Guðrúnu hafa eignast níu börn og notið þess að fylgjast með þeim og barnabörnunum. „Hún hafði gaman af því að umgangst fólk. Allir sem komu frá Íslandi urðu að hitta Guðrúnu því hún var vel þekkt þar,“ segir Lilja. Haraldur Bessason prófessor rannsakaði málið á sínum tíma og lét Guðrúnu vita að hún væri allra Íslendinga elst. Lilja segir Guðrúnu þá hafa hlegið, henni hafi nefnilega aldrei fundist hún gömul. „Þegar hún var 100 eða 105 ára fór hún daglega út að ganga. Þeir sem sáu hana úti á götu dáðust að kraftinum í henni,“ segir Lilja.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×