Innlent

Íslendingur lést í flugslysi í Kanada

Liðlega tvítugur Íslendingur lést í flugslysi í Bresku Kólumbíu í Kanada síðdegis í fyrradag. Þrír aðrir voru í vélinni, einn Íslendingur og tveir Kanadamenn, allir um tvítugt, og komust þeir lífs af.

Samkvæmt upplýsingum frá alþjóðadeild ríkislögreglustjóra var vélin, fjögurra sæta Cessna-vél, á leið til bæjarins Squamish þegar hún steyptist til jarðar í skóglendi. Íslendingurinn lést á staðnum en hitt fólkið var flutt alvarlega slasað með þyrlu á sjúkrahús í Vancouver.

Kanadíska dagblaðið Vancouver Sun lýsir hetjudáð annars kanadísku farþeganna, sem þar segir að hafi bjargað þeim tveimur sem á lífi voru, nítján ára íslenskum manni og tvítugri kanadískri stúlku, út úr vélarflakinu og komið þeim á öruggan stað. „Þegar hann hafði komið þeim á autt svæði framkvæmdi hann fyrstu hjálp og svo veifaði hann okkur þannig að við fundum nákvæma staðsetningu þeirra. Hann er sönn hetja,“ hefur blaðið eftir Bruno Lapointe, tæknimanni leitarvélarinnar.

Á vefnum segir að þremenningarnir hafi þjáðst af ofkælingu og verið með mismikla líkamlega áverka. Á vefnum canada.com segir að þykkt skóglendi sé þar sem vélin hrapaði og erfitt hafi verið fyrir leitarmenn að finna fólkið.

Ekki fengust nánari upplýsingar um líðan Íslendingsins slasaða, eða hver flaug vélinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×