Innlent

Íslendingar halda 187 tónleika erlendis í mars

Um það bil tvöhundruð tónleikar íslenskra listamanna eru á dagskránni í mars, víðsvegar um heiminn. Útrás íslensks tónlistarfólks er því í fullum gangi en talið er að um met sé að ræða í einum mánuði.

Útón, útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar hefur frá byrjun árs í fyrra haldið utan um og skrásett tónleika Íslendinga erlendis. Á heimasíðu Úton má finna alla tónleika íslendinga erlendis og marsmánuður sem nú er nýhafinn sker sig töluvert úr. Hvorki meira né minna en 187 tónleikar íslenskra sveita og listamanna eru skráðir, víðsvegar um heiminn.

Listinn er raunar ekki tæmandi og segir Sigtryggur Baldursson, framkvæmdastjóri Útón að tónleikarnir verði líklegast um og yfir tvöhundruð þegar allt er talið.

"Þetta kom mér rosalega á óvart, því við héldum að við værum að sjá ákveðið hámark í þessu síðasta sumar þegar það voru sjötíu tónleikar íslenskra hljómsveita í einum mánuði. Það fannst okkur rosalega mikið en að þetta skuli vera að losa tvöhundruð finnst mér alveg stórspaugilegt."

Sigtryggur segir að þessi þróun hafi verið viðvarandi síðustu ár og að íslenskir listamenn séu sífellt að mynda betri og betri tengsl erlendis. Þá hefur Úton einnig staðið fyrir námskeiðum og fræðslukvöldum til þess að fræða kenna mönnum inn á bransann.

Það hafa verið fræðslukvöld sem við höfum séð um og síðan verður til svo mikið af upplýsingum þegar fleiri og fleiri fara að spila erlendis að þá deilast þessar upplýsingar til baka inn í landið og nýtast fleirum.

Ef við lítum til dagsins í dag má til dæmis sjá að ýmislegt er í boði. Tíu íslenskar sveitir troða upp og má þar nefna Sigur Rós í Manchester - Sólstafi í Berlín - Pascal Pignon á Ítalíu og FM Belfast í New York.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×