Handbolti

Ísland verður með á HM í Katar | Ísland og Sádí-Arabía fá lausu sætin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska handboltalandsliðsins.
Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska handboltalandsliðsins. Vísir/Stefán
Íslenska handboltalandsliðið verður með á HM í handbolta í Katar í janúar eftir allt saman en þessi óvænta ákvörðun var tekin á fundi Framkvæmdastjórnar IHF í Þýskalandi í dag samkvæmt óstaðfestum heimildum íþróttadeildar 365 . Íslenska landsliðið fær sæti í C-riðli með Svíum og Frökkum.

Barein og Sameinuðu arabísku furstadæmunum höfðu afsalað sér sætum sínum fyrr í þessum mánuði vegna pólískra ástæðna en þau vildu síðan bæði fá sætin aftur í þessari viku. Íslenska liðið tekur sæti Sameinuðu arabísku furstadæmanna í C-riðlinum.

Flestir bjuggust við því að Alþjóðahandboltasambandið tæki þjóðirnar inn aftur en báðar höfðu tryggt sér sín sæti upprunalega í gegnum undankeppnina í Asíu.

Framkvæmdastjórn IHF sættist hinsvegar ekki á endurkomu Barein og Furstadæmanna og ákvað frekar að bjóða Evrópu og Asíu lausu sætin á HM í Katar í byrjun næsta árs. Handknattleikssamband Evrópu og Handknattleikssamband Asíu fengu í framhaldinu að velja sína þjóð og Ísland fékk sæti Evrópu.

Ísland var fyrsta varaþjóð Evrópu en IHF hafði þegar gengið framhjá íslenska landsliðinu þegar Þjóðverjar fengu að taka sæti Ástrala sem misstu sætið sitt í júlímánuði síðastliðnum. Samkvæmt sömu viðmiðum stjórnar IHF hefðu Serbar og Ungverjar átt að taka sæti Barein og Sameinuðu arabísku furstadæmanna en ekki Ísland.

Óvissan í kringum vinnuaðferðir IHF hélt þó mönnum á tánum fram á síðustu stundu og eftir langan og strangan fund bárust fréttir um það að íslenska handboltalandsliðið verði með  á HM í Katar sem fer fram frá 15. janúar til 1. febrúar 2015 næstkomandi.

Ísland verður í C-riðli með Frakklandi, Svíþjóð, Alsír, Tékklandi og Egyptalandi. Fyrsti leikur Íslands verður á móti Svíum 16. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×