Innlent

Ísland mótmælir ekki meðalgöngu Evrópusambandsins

Ragnheiður Elín Árnadóttir
Ragnheiður Elín Árnadóttir
Íslensk stjórnvöld telja best að leggjast ekki gegn meðalgöngu framkvæmdastjórnar ESB í Icesave-málinu. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins mótmælir og segir ástæðulaust að halda áfram aðildarviðræðum að óbreyttu.

Íslensk stjórnvöld setja sig ekki upp á móti því að Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fái leyfi til meðalgöngu í máli Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum vegna Icesave-málsins.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokks í utanríkismálanefnd segir hins vegar að íslensk stjórnvöld hafi átt að mótmæla þessari innkomu ESB.

Frestur íslenskra stjórnvalda til að gera athugasemd við kröfu framkvæmdastjórnarinnar rann út í gær. Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að lagt sé í hendur EFTA-dómstólsins hvort meðalganga framkvæmdastjórnarinnar verði leyfð.

Þar segir einnig að leið meðalgöngu, sem felur í sér beinni aðkomu framkvæmdastjórnarinnar að málinu umfram hina hefðbundnari leið að leggja fram skriflega greinargerð, gæfi Íslandi aukna kosti í málsvörn sinni.

„Stjórnvöld munu eiga þess kost að svara sérstaklega afstöðu sem fram kemur við meðalgöngu en þess er ekki kostur þegar hún kemur eingöngu fram í skriflegri greinargerð.“

Það væri því einróma niðurstaða aðalmálflytjanda og málflytjendateymis Íslands „að það þjónaði best hagsmunum Íslands að leggjast ekki gegn meðalgöngu hennar í málinu“.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefur sætt gagnrýni fyrir að ekki hafi verið upplýst um kröfu framkvæmdastjórnarinnar um meðalgöngu þegar hún kom fram í lok síðasta mánaðar.

Meðal annars hafi utanríkismálanefnd ekki frétt af málinu fyrr en sagt var frá því í fjölmiðlum. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði í viðtali á RÚV í gær að sama hafi gilt um sig.

Össur sagði í viðtali við fjölmiðla í gær að hann hafi gert ráð fyrir að þingmenn hefðu fylgst með málinu og hefði því getað verið kunnugt um kröfu framkvæmdastjórnarinnar.

„Hugsanlega hefði ég átt að gera [utanríkismálanefnd] viðvart svo að tryggt væri að þeir fengju af þessu vitneskju.“

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks og fulltrúi í utanríkismálanefnd, segir í samtali við Fréttablaðið að ráðherra hafi brugðist í málinu.

„Ég held að það sé öllum ljóst að ráðherra brást upplýsingar- og samráðsskyldu sinni gagnvart nefndinni. Mér fannst hann viðurkenna það í fjölmiðlum. Við vonum bara að gerð verði bragarbót á því.“

„Ég held að við þurfum að mótmæla þessu kröftuglega og ég sé enga ástæðu til að halda áfram aðildarviðræðum við ESB á meðan þessi staða er uppi.“

thorgils@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×