Innlent

Ísland í góðum málum

Ísland er enn meðal þeirra landa í heiminum þar sem minnst spilling þrífst, samkvæmt alþjóðlegri könnun. Prófessor í stjórnmálafræði segir íslenskt samfélag þeirrar gerðar að þar ríki traust milli manna og viðskiptalífið hagnast á verunni á þessum lista. Transparency International gerir árlega könnun á spillingu um heim allan. Notast er við kannanir og rannsóknir virtra stofnana og álit aðila úr viðskiptalífi og vísindum. Í ár er Finnland á toppnum, þar á eftir kemur Nýja Sjáland og svo Ísland og Danmörk í þriðja til fjórða sæti. Bandaríkin eru í 17. sæti. Efstu löndin eiga það sameiginlegt að vera stöðug lýðræðisríki, með gott velferðarkerfi. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórmálafræði segir líklega einhverja breytu liggja að baki niðurstöðunum, sem segi til um hve mikið traust ríki á milli fólks í samfélaginu. Slík breyta skýri margt, svo sem spillingu, stöðugleika lýðræðis og hagvöxt. Á botninum eru Haíti, Bangladesh og Nígería, og fram kemur að spilling virðist vera gríðarleg í olíuframleiðsluríkum. Gunnar segir að íslenska viðskiptalífið hagnist á því að vera svo ofarlega á listanum. Hann segir þetta eitt af því fyrsta sem fjárfestar líti á og því standi Ísland mjög vel að vígi hvað þann hlut áhrærir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×