Innlent

Ísland greiddi atkvæði gegn útrýmingu kjarnorkuvopna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York í Bandaríkjunum.
Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York í Bandaríkjunum.
Ísland greiddi atkvæði gegn ályktunardrögum um bann við kjarnorkuvopnum og útbreiðslu þeirra í síðustu viku á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Drögin voru lögð fram í fyrstu nefnd Allsherjaþings Sameinuðu þjóðanna sem fer með öryggis- og afvopnunarmál.

Í drögunum er farið fram á að ríki, alþjóðasamtök og félagasamtök beiti sér fyrir því að kjarnorkuvopnum verði útrýmt á þeim grundvelli að það sé siðferðislega ótækt að beita slíkum vopnum.

Ályktunardrögin voru samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta en 128 ríki kusu með drögunum, 29 kusu gegn þeim en 18 ríki sátu hjá.

Ísland var í hópi þeirra ríkja sem sagði nei en athygli vekur að öll NATO-ríkin sögðu nei, að undanskildum Noregi, Albaníu og Portúgal sem sátu hjá. Finnland sat einnig hjá.

26 af þeim ríkjum sem kusu gegn ályktuninni eða sátu hjá gáfu út yfirlýsingu fyrir atkvæðagreiðsluna þar sem afstaða þeirra var útskýrð. Þar segir að þau séu fylgjandi því markmiði að útrýma kjarnorkuvopnum en ályktunardrög þessi séu til þess fallin að skapa sundrung í alþjóðasamfélaginu hvað varðar eyðingu kjarnorkuvopna. Mikilvægt sé að skapa umræðuvettvang þar sem öll sjónarmið varðandi kjarnorkuvopn og útrýmingu þeirra séu virt.

Fréttastofa sendi utanríkisráðuneytinu fyrirspurn vegna þess máls í gærkvöldi en hefur ekki fengið svar. Að sögn Urðar Gunnarsdóttir upplýsingafulltrúa er þetta til skoðunar innan ráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×