Innlent

Ísafjarðarbær í samstarf við Skema

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hér má sjá þau Ragnar Þór Pétursson, sérfræðing í skólaþróun hjá Skema og Margréti Halldórsdóttur, sviðsstjóra hjá skóla- og tómstundasviði Ísafjarðarbæjar handsala samstarfssamning um innleiðingu á upplýsingatækni í skólastarf Ísafjarðarbæjar.
Hér má sjá þau Ragnar Þór Pétursson, sérfræðing í skólaþróun hjá Skema og Margréti Halldórsdóttur, sviðsstjóra hjá skóla- og tómstundasviði Ísafjarðarbæjar handsala samstarfssamning um innleiðingu á upplýsingatækni í skólastarf Ísafjarðarbæjar. mynd/aðsend
Ísafjarðarbær í samstarfi við Skema hafa skrifað undir 14 mánaða samstarfssamning sem miðar að því að byggja upp og tryggja árangursríka innleiðingu á upplýsingatækni í skólastarf Ísafjarðarbæjar og nágrennis.

Einnig er ætlunin að marka sveitarfélaginu þannig forystustöðu á landsvísu í beitingu á tækni í skólastarfi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skema.

Þar kemur fram að ný tækni, internetið og snjalltæki hafi opnað á möguleika og tækifæri sem áður voru ekki til staðar og það ætlar Ísafjarðarbær að hagnýta sér.

„Möguleikar og tækifæri 21. aldarinnar byggja að miklu leyti á nýjum tæknilausnum og netinu og eftir því sem skilningur á þessum lausnum og möguleikum þeirra er meiri þeim mun meiri möguleikar eru í stöðunni fyrir uppbyggingu á sviðinu og það óháð staðsetningu. Í dag snýst allt um tæknilega færni, þekkingu og skapandi hugsun sem aftur kallar á nýjar áskoranir sem bregðast þarf við með m.a. aukinni áherslu á tæknimenntun og iðnmenntun á öllum skólastigum og meira flæði og samvinnu á milli allra skólastiga,“ segir í tilkynningunni.

Ísafjarðarbær ætlar sér að skapa sveitarfélaginu sérstöðu hvað þetta varðar með því að innleiða upplýsingatækni markvisst í sitt skólastarf og það m.a. í samstarfi við sprotafyrirtækið Skema.

Skema hefur á síðustu árum unnið að því í samstarfi við skóla og ráðuneyti að kennsla í forritun verði í boði í grunn- og framhaldsskólum landsins og vill þannig auka tæknilæsi landans og almenna tæknivitund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×