Erlent

Íranar biðja Sameinuðu þjóðirnar um aðstoð

Samúel Karl Ólason skrifar
Hassan Rouhani, forseti Íran, hefur verið hvattur til að lýsa yfir að Bandaríkin hafi brotið gegn kjarnorkusamkomulaginu.
Hassan Rouhani, forseti Íran, hefur verið hvattur til að lýsa yfir að Bandaríkin hafi brotið gegn kjarnorkusamkomulaginu. Vísir/EPA
Yfirvöld í Íran hafa beðið Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, að koma þeim til aðstoðar vegna deilna við Bandaríkin. Dómstóll þar í landi úrskurðaði nýverið að nota skyldi frosnar eignir Íran til þess að greiða fórnarlömbum hryðjuverkaárása sem Íran hefur verið kennt um bætur.

Utanríkisráðherra Íran, Javad Zarif skrifaði bréf til Ban þar sem hann bað framkvæmdastjórann að beita sér í því að Bandaríkin færu eftir alþjóðlegum skuldbindingum sínum.

Íranar hafa kvartað yfir því undanfarið að Bandaríkin séu ekki að standa við skuldbindingar sínar varðandi kjarnorkusamkomulagið við Íran sem samþykkt var í fyrra. Í ríkissjónvarpi Íran var haft eftir helsta ráðgjafa Ayatollah Ali Khamenei, æðsta leiðtoga Íran, að ríkið myndi aldrei samþykkja „þjófnað sem þennan“.

Fjölskyldur fórnarlamba sprengjuárásarinnar í Beirút árið 1983, unnu málaferli gegn Íran fyrir bandarískum dómstólum árið 2007. 305 létu lífið í árásinni og eru árásaraðilarnir sagðir hafa verið studdir af Íran. Samkvæmt niðurstöðu dómsins átti Íran að greiða fjölskyldunum 2,65 milljarða dala. Áðurnefndar frosnar eignir Íran á að nota til að greiða þessar bætur.

Harðlínumenn í Íran hafa hvatt forseta landsins til að segja að um brot gegn kjarnorkusamkomulaginu sé að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×