Innlent

Innbrot og skemmdarverk í Vestmannaeyjum

Randver Kári Randversson skrifar
Vísir/Pjetur
Það var í ýmsu að snúast hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum í síðustu viku vegna hinna ýmsu verkefna sem upp komu. 

Aðfaranótt 22. júlí var tilkynnt um rúðubrot hjá Aska Hostel en þarna hafði rúða við hliðina á aðalinngangi verið brotin.  Leikur grunur á hver þarna var að verki en hann hefur neitað sök. Lögreglan í Vestmannaeyjum hvetur þá sem einhverjar upplýsingar hafa varðandi þetta umrædda rúðubrot að hafa samband.

Að morgni 23. júlí var lögreglu tilkynnt um að farið hafi verið inn í íbúð og þaðan stolið fartölvu og lyfjum. Grunur beindist fljótlega að ákveðnum aðila og við húsleit hjá þessum aðila síðdegis daginn eftir fannst tölvan. Eigandinn var mjög þakklátur lögreglu fyrir að hafa endurheimt tölvuna.

Einn ökumaður var stöðvaður í vikunni vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, auk þess sem hann hafði ekki réttindi til aksturs ökutækis.  Þá var einn ökumaður sektaður fyrir ólöglega lagningu ökutækis síns.

Tvö umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu í liðinni viku en í báðum tilvikum var um minniháttar óhöpp að ræða og engin slys á fólki.

Lögreglan vill minna á að útivistareglurnar gilda jafnt á Þjóðhátíð sem aðra daga ársins og hvetur foreldra og forráðamenn barna að hafa í huga velferð og öryggi barna sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×