Handbolti

Iker Romero hættir í vor

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Spánverjinn Iker Romero, leikmaður Füchse Berlin, ætlar að leggja skóna á hilluna þegar tímabilinu lýkur í þýsku úrvalsdeildinni.

„Það hefur margsinnis verið sárt að tilkynna brotthvarf leikmanna frá félaginu en þetta er það erfiðasta sem ég hef þurft að gera í mínu starfi,“ sagði Bob Hanning, framkvæmdarstjóri Füchse Berlin, við þýska fjölmiðla.

„Við missum nú merkan íþróttamann sem hefur tekið þátt í því að móta félagið undanfarin þrjú ár. Hann færði okkur hugarfar sigurvegarans og var fyrirmynd fyrir leikmenn og alla aðra hjá félaginu - líka mig.“

Romero hefur verið lykilmaður með liðinu í vetur og spilað meira en fyrri tímabil vegna meiðsla í leikmannahópi Berlínarrefanna. Hann varð bikarmeistari með liðinu fyrr í mánuðinum en það var fyrsti titill í sögu félagsins.

Füchse Berlin stefnir svo að því að vinna EHF-bikarkeppnina í næsta mánuði en úrslitahelgin fer fram á heimavelli.

Romero, sem hefur orðið heimsmeistari með Spáni, lék með Ciudad Real og Barcelona í heimalandinu áður en hann kom til Þýskalands.

„Þetta er erfiðasta ákvörðun sem ég hef tekið í mínu lífi. Þessi átján ár mín sem handboltamaður voru eins og atján mánuðir. Ég hef lengi íhugað næstu skref og tel þetta rétt fyrir mig, minn líkama og mína fjölskyldu.“

Síðasti leikur Romero með Füchse Berlin verður gegn Kiel þann 24. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×